Áætlað að Drangey fari til veiða um 20. janúar

Drangey, hið nýja skip Fisk Seafood á Sauðárkróki, sigldi frá Akranesi sl. fimmtudagskvöld, þaðan sem Skaginn3X hefur verið að setja nýjan búnað á millidekk og í lest síðustu vikur, og liggur nú við bryggju í Sauðárkrókshöfn. Að sögn Jóns Inga Sigurðssonar, tæknistjóra Fisk Seafood er verkið langt komið, eða þannig að það sem eftir er, er rafvirkjavinna og forritun.
„Á króknum byrjum við á því að undirbúa millidekksgólf undir málningu og líkur því verki í viku 1. Þá kemur maður frá spilframleiðandanum Seaonics frá Noregi til að undirbúa uppkeyrslu á spilbúnaði. Eftir uppkeyrslu á spilbúnað er hægt að byrja að taka togvíra og veiðarfæri um borð. Skaginn3X kemur með nokkra menn í byrjun janúar til að klára sín mál.
Í lok þriðju viku janúar verður farið í prufutúr, þar sem spilbúnaður og millidekksbúnaður verður prófaður,“ segir Jón Ingi.
Áætlað er að skipið fari til veiða í fjórðu viku janúar, eða í kringum 20. janúar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.