Að vera sjálfum sér trúr :: Áskorandapenninn Jóhannes Torfason Torfalæk A-Hún.

Það er auðvelt að lifa hátíðardaginn en tekur á að lifa hvernsdaginn, þó er hann mjög mikilvægur, á honum gerast hlutirnir. Nú lifum við vikur þar sem gylliboðin fylla flesta miðla sem ná til okkar, boð sem flestir sem þau senda vita að eru tál. Blessunarlega er hægt að slökkva á flestum miðlum og ég segi oft að þögnin sé besta útvarpsefnið.

Áhugavert er að skoða hugtök eins og kolefnishlutleysi og sjálfbærni sem margir eru mjög uppteknir af þessi misserin. Það þarf hvorki mikið þrek né fórnarlund að sitja í mjúku sæti í flugi og á ráðstefnum víða um heim á kostnað samfélagsins, með töluverðu kolefnisspori, og semja langlokur um hvað við erum að spilla umhverfinu mikið og hvernig við eigum að taka okkur tak og forða hamfarahlýnun jarðar, bjarga heiminum. Í mínum augum er þetta mest allt fallegt snakk um götu sem aðrir eiga að ganga, en enginn viðkomandi er tilbúinn til að ganga sjálfur. Hjá mörgum bera lærdómsgráður því miður menntunina ofurliði í umfjöllun um þessi mál, já og reyndar mörg önnur.

Erum við í raun tilbúin að takast á við afleiðingar þess að fylgja tillögum í þessum langlokum eftir af fullri alvöru? Við værum að færa okkur 200 til 300 ár til baka í lífskjörum. Á þeim tíma snérist tilveran um að hafa eitthvað til næringar og skjóls, sem reyndist flestum mjög erfitt. Fróðlegt er að lesa pistla sem Jón bróðir er að birta á Húnahorninu um líf fólks hér í sveit um aldamótin 1800.

Hvað olli hlýskeiðum jarðar fyrir nokkrum árþúsundum, þegar birkiskógur þöktu stóran hluta af láglendi Íslands og homo sapiens varla búinn að finna upp hjólið? Tæplega tæknivæddur iðnaður og samgöngutæki – nútíma lifnaðarhættir. Var e.t.v. náttúran sjálf að verki með eldvirkni og jarðskorpubreytingum. Hvað er útblástur litla eldgossins á Reykjanesi á við mikla mengun af daglegum lífsháttum okkar á landinu góða.

Hvar er samkvæmni fólks sem vill ekki nýta íslenska „hreina“ orku til að framleiða góðmálma, en vill frekar kaupa þessa málma og vörur unnar úr þeim frá löndum sem nota kol til framleiðslunnar, með mun meira s.k. kolefnisspori? Já, eða tal um að minnka mengun, en vilja samt geta ferðast um veröld alla og keypt í matinn frá fjarlægum löndum, er þá í lagi með kolefnissporið? Erum við tilbúin að láta af fjölmörgum þáttum í okkar daglega lífi og hverfa til þess tíma þar sem lífið snérist eingöngu um að afla næringar og skjóls?

Það er sjálfsagt að ganga vel um náttúruna og nálgast það hugtak sem við köllum sjálfbærni eftir bestu getu, þó að þetta hugtak sé að vissu leyti markleysa. 
Það er ekki nóg að meina það sem sagt er, það þarf að vera tilbúinn að gera það og taka afleiðingunum. En erum við það?
Ég skora á Birgi Þór Haraldsson bónda á Kornsá 1 að taka við áskorendapennanum.

 Áður birst í 37. tbl.  Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir