Aðalskrifstofa sýslumanns verði á Blönduósi

Samkvæmt umræðuskjölum sem hafa verið birt á vef innanríkisráðuneytisins er gert ráð fyrir að aðalskrifstofa sýslumannsins á Norðurlandi vestra verði á Blönduósi en sýsluskrifstofa verði einnig á Sauðárkróki.

Umræðuskjölin varða reglugerð um umdæmamörk og starfsstöðvar annars vegar lögregluembætta og hins vegar sýslumannsembætta. Gert er ráð fyrir að sýsluskrifstofa verði á Sauðárkróki. Á sýsluskrifstofum verður veitt sama þjónusta og á aðalskrifstofu sýslumanns.

Þann 22. maí síðastliðin voru birt ný lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem og breytingar á lögreglulögum nr. 90/1996. Hin nýsettu lög gera ráð fyrir því að settar verði reglugerðir um umdæmamörk og starfsstöðvar hinna nýju embætta að undangengnu samráði.

Með birtingu á umræðuskjölunum er verið að hefja það samráðsferli en samkvæmt lögunum skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga, lögreglustjóra og sýslumenn.

Efni reglugerðanna er tvíþætt:
Annars vegar að ákveða í reglugerð hver umdæmamörk embættanna verða. Sú ákvörðun skal taka mið af skipulagi annarrar opinberrar þjónustu í umdæminu og skal hún tekin að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og viðkomandi sýslumenn.

Ráðherra ákveður einnig, að höfðu samráði við viðkomandi sýslumann, hvar aðalskrifstofur sýslumanna skulu vera og hvar aðrar sýsluskrifstofur verða starfræktar og hvaða þjónustu þar skuli veita.

Hins vegar að ákveða í reglugerð hvar aðalskrifstofur sýslumanna og hvar aðalstöð lögreglustjóra skuli staðsettar. Ráðherra ákveður einnig, að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra, hvar aðalstöð lögreglustjóra skuli vera og hvar lögreglustöðvar verða starfræktar innan umdæmanna.

Ráðuneytið óskar eftir góðu samráði í aðdraganda breytinganna. Rökstuddar tillögur og/eða athugasemdir óskast sendar á netfangið postur@irr.is fyrir 1. júlí næstkomandi.

 

Fleiri fréttir