Aðeins fjögur útköll á síðasta ári
Skráð útköll Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu á síðasta ári voru aðeins fjögur og þar af voru tvö vegna umferðaróhappa. Haldnar voru tólf æfingar á síðasta ári og skráðar skoðanir vegna eldvarnareftirlits voru um þrjátíu. Þetta kemur fram í fundargerð aðalfundar BAH sem haldinn var þann 12. júní.
Afgangur varð af rekstri Brunavarna A-Hún. á síðasta ári og nam hann um 3,5 m.kr. Tekjur BAH á síðasta ári námu 1,5 m.kr. og rekstrargjöld námu 12,9. m.kr. Framlög sveitarfélaga námu 14,9 m.kr. og varð því rekstrarniðurstaðan jákvæð um 3,5 m.kr. sem er umfram áætlun.
Á aðalfundinum fór formaður stjórnar, Arnar Þór Sævarsson, yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi en haldnir voru tveir formlegir fundi á árinu. Fram kom í máli formanns að á næstu árum þurfi að endurnýja tækjakost og fjárfesta í nýjum slökkviliðsbíl.
Þá kom fram að viðsnúningur hafi orðið í rekstri BAH til hins bera og að umtalsverður árangur hafi náðst í að hagræða í rekstrinum. Þannig hafi framlög sveitarfélaganna farið lækkandi undanfarin ár. Rekstur BAH gangi því vel, sé í jafnvægi og ekki verði gengið lengra í hagræðingu.