ADSL á Íslandi 10 ára

siminn_logoÍ gær, sunnudag, fagnaði Síminn 10 ára afmæli ADSL á Íslandi.  Hver man ekki eftir ýlfrinu og suðinu í tölvunni þegar upphringiaðgangur var eina leiðin til að tengjast Internetinu  ISDN áður en ADSL kom til sögunnar?

 Ef þú manst það ekki getur þú rifjað upp HÉR

Til þess að tengjast Internetinu þurfti notandinn að hinkra dágóða stund þar til samband náðist og hraðinn aðeins brot af því sem þekkist í dag sem þýddi að töluverðan tíma tók að vafra á Internetinu. 

ADSL markaði  tímamót í sögu gagnaflutnings því um var að ræða sítengingu eins og flestir þekkja tæknina í dag. Um  þessar mundir eru 10 ár frá því að sala á ADSL hófst hjá Símanum. 

„Andskotans , djöfulsins sambandsleysi“

Talað var um byltingu í hér á landi hvað varðaði háhraða-gagnaflutninga en fyrst um sinn var töluvert um tæknilegar flækjur og menn höfðu á orði að ADSL stæði fyrir „Andskotans, Djöfulsins SambandsLeysi“.  Þá má geta þess að markaðsfræðingum fannst ómögulegt að ætla að markaðssetja vöru sem væri skammstöfuð og reynt var að finna nafn á fyrirbærið sem bar augljóslega ekki árangur því alls staðar er skammstöfunin ADSL notuð. 

Einhverra hluta vegna fannst mönnum í fyrstu auðveldara að segja AS-DL en ADSL varð að lokum ofan á.  ADSL stendur fyrir enska orðasambandið „ Asymmetric digital subscriber line” og þýðir að gagnaflutningur fari frá einum stað til annars ósamhverft um símalínur.  Meginkosturinn er sá að hvorki símsambandið né gagnaflutningurinn truflar hvert annað vegna ólíkrar tíðni.

 Til marks um það að Síminn lagði áherslu á grunnnetið á þessum tímum þá var ekki hægt að kaupa Internetáskrift  hjá Símanum, aðrir aðilar sáu um þann hluta. Ekki leið þó á löngu þar heildarþjónusta var veitt og viðskiptavinir Símans gátu keypt tengingu og Internetáskrift á einum og sama staðnum.

Nú eru nánast allir Íslendingar sem nota netið með ADSL og í háhraðaverkefni Fjarskiptasjóðs og Símans er unnið að því hörðum höndum að tengja þá síðustu háhraðaneti sem enn búa við ISDN/POTS eða innhringiaðferðina.

Tölur úr nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnun sýna að tæplega 100 þúsund xDSL áskriftir eru hér á landi.  Margfalt færri nota ljósleiðarann, þótt hann hafi farið vaxandi, og enn færri fá Internetsamband í gegnum örbylgjuloftnet eða gervihnött.

 Þegar fólk var í vafa um möguleika tækninnar bárust oft skondnar spurningar í þjónustuver Símans og eftirfarandi er úr safni Símans.

1. Ég er að flytja frá Akureyri til Reykjavíkur í eitt ár. Er hægt að flytja gsm númerið með sér til Reykjavíkur  eða þarf ég að fá mér nýtt númer?

2. Nei, nei. Þetta er eitthvað bilað hjá ykkur. Ég er búinn að hafa þetta símtæki í 40 ár, og hann fer nú varla að bila úr þessu!

3. Ég er að fara til USA á morgun, og ætla að taka GSM símann minn með. Þarf ég að taka hleðslutækið með mér líka.

4. Þegar maður er staddur í útlöndum, og hringir heim, þarf maður að setja 354 fyrir framan, en hvað þarf maður að setja fyrir framan þegar maður er að senda tölvupóst erlendis frá?

5. Ég er með breiðvarpið, og horfi mest á spænsku stöðina. Hún er svarthvít hjá mér, og ég er að horfa á matreiðsluþátt. Veistu nokkuð litinn á kökunni sem er á skjánum núna?

 6. Hvað á þetta að þýða að loka símanum. Ég gerði allt upp hjá ykkur fyrir nokkrum mánuðum síðan.

 7. Ég var að pæla í að gefa stráknum mínum LSD. Getið þið reddað því fyrir mig? (ADSL)

 8. Ég stillti GSM símann minn á þýsku, en þegar ég sendi þýskri vinkonu minni SMS, fær hún þau bara á íslensku!

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir