Áður blómlegt atvinnulíf Haganesvíkur til umfjöllunar í Landanum
Haganesvík í Fljótum var til umfjöllunar í Landanum sl. sunnudag. Þar var blómlegt atvinnulíf fram eftir síðustu öld m.a. með sláturhúsi, ferðaþjónustu og útgerð en þar er nú hinsvegar hálfgert draugaþorp í dag.
Í Landanum kemur fram að Fljótin eiga sér langa atvinnulífssögu og þá sérstaklega hvað varðar útgerð á staðnum en til eru heimildir fyrir því margar aldir aftur í tímann.
„Í aldanna rás hafa fljótamenn orðið að bjarga sér, enda sveitin afskekkt“, sagði Guðmundur Pálsson fyrrverandi lögregluþjónn og fljótamaður en að hans sögn voru útgerðarstaðirnir aðallega tveir: Krókur og Haganesvík en þar var róið til fiskjar og á hákarl.
Starfsemin í Haganesvík fékk á sig skipulagðari mynd uppúr aldamótunum síðustu. Verslunarrekstur hófst þar fljótlega eftir að þinghús var þar reist árið 1904 og árið 1919 var Samvinnufélag Fljótamanna stofnað. Síðar var þar m.a. komið á laggirnar sláturhúsi, veitingahúsi, samkomuhúsi og fleira.
Á 7. og 8. áratugnum fór svo að halla undan fæti í Haganesvík þar sem ungt fólk fór að flytja á brott, sennilega í leit að fjölbreyttara atvinnulandslagi.
Hér má sjá innslagið úr Landanum.