Aðventugleði á Hofsósi
Laugardaginn 6. desember standa nokkrir íbúar og fyrirtæki fyrir Aðventugleði á Hofsósi. Í félagsheimilinu Höfðaborg verður markaður með fjölbreyttan varning. Þar verður einnig Héraðsbókasafnið með bókahorn og kynningu á nýjustu bókunum. Hægt verður að setjast niður og kaupa kaffi og kökur.
Nokkrir nemendur grunnskólans stíga á stokk og syngja jólalög. Boðið verður upp á garnskiptimarkað og einnig verður hægt að föndra eigin jólaskreytingu úr greni, könglum og skrautborðum. Í sundlauginni verður jólastemmning og verslun KS Hofsósi verður með tilboð og lengir opnunartímann til kl. 18. Í Smáhólaskógi við Hofsós verður eldur og kakó.
Gleðin hefst kl. 14 og stendur til 18. Gott að hafa með sér reiðufé því ekki verða allir seljendur með posa.
