Ætlar að einbeita sér að þjálfun :: Liðið mitt - Fannar Freyr Gíslason fyrrverandi Man. Utd.

Knattspyrnumaðurinn Fannar Freyr Gíslason hefur marga fjöruna sopið á keppnisvöllum landsins en hann hóf keppnisferil sinn í meistaraflokki með uppeldisfélaginu, Tindastóli, árið 2006, þá aðeins 15 ára gamall. Eftir fjögur ár á Króknum hófst nýr kafli hjá kappanum og gekk hann í raðir ÍA sem þá léku í 1. deild. Seinna skipti hann yfir í HK og flakkaði svo örlítið á milli liða á Norðurlandi, Tindastóls, KA og Magna Grenivík þar sem hann lék sinn síðasta leik 2017, í bili a.m.k. eftir 147 meistaraflokksleiki og 30 mörk. Fannar Freyr svarar spurningum í Liðinu mínu þessa vikuna.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Ég held með BARCELONA. Þegar ég var yngri hélt ég með Man Utd. en snar hætti því eftir að þeir seldu David Beckham, sé ekki eftir því í dag.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Þeir eiga eftir að sigra þetta á Spáni, vona ég, ef Messi kemst almennilega í gang.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Nei voru að tapa fyrir Real um daginn og voru að kaupa einhvern Dana (Martin Braithwaite) Frá Leganes með einhverri undanþágu, sem mér finnst bull og vitleysa.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Hehe! Nei, er oftast spurður: „Með hvaða liði heldurðu í enska?“ Þá segi ég Barcelona og þá deyja þær samræður yfirleitt út.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Ég verð að segja David Beckham, Messi og Eiður Smári.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Nei, því miður. Ætlaði alltaf að fara á El Classico og sjá Messi VS Ronaldo en það er ekki hægt núna, því miður.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Ég á bara búning tengdum Barcelona, með Messi aftan á. Sé eftir því að hafa ekki fengið mér „GUDJOHNSEN“ nr 7.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Sonur minn er alveg sjúkur í fótbolta: Það gengur vel að segja að Barcelona séu bestir og Messi sé bestur í heimi, en það eru alltaf einhver skemmd epli að reyna að plata hann. T.d  eru afarnir Arsenal- og Liverpoolaðdáendur.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Já, eins og ég sagði áðan, pabbi vill samt meina að ég hafi haldið með Arsenal þegar ég var polli, en skipt svo yfir í Man. Utd. þegar ég var á leikskóla af því að Árni og Atli Arnarssynir héldu með þeim. Man því miður ekki eftir því.

Uppáhalds málsháttur? „Get, Ætla, Skal!“, ef það er málsháttur.

Einhver góð saga úr boltanum? -Þær eru margar góðar og það eina sem ég sakna við fótboltann er klefastemmingin. Er samt með eina góða sögu. Ég var kominn í ÍA, vorum að keppa leik á Akureyri í Lengjubikarnum. Þetta var nýliðavígsla þar sem við áttum að hlaupa naktir upp kirkjutröppurnar á Akureyri og kláruðum við það verkefni. En svo kom í ljós að við þurftum að hlaupa upp aftur af því að þjálfararnir voru ekki komir á svæðið (svekk). þetta var í febrúar/mars minnir mig þannig það var frekar kalt úti, svo var maður edrú í þokkabót. Endaði svo þessa nýliðavígslu á því að syngja „Eins og fjallavatn“ eins og alvöru Skagfirðingur.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Man ekkert í fljótu bragði. Það voru nú ekki margir að abbast í mér en man að Gísli Sveins pissaði á okkur nýliðana, sem herti okkur heldur betur upp.

Spurning frá Jónasi Aroni Ólafssyni: -Eru skórnir alveg komnir upp á hillu?

Svar: -Fyrir þá sem ekki vita, sleit ég krossband á hægra hné fyrir þremur árum síðan. Ég er búinn að eiga í svo miklum meiðslum á ferlinum að ég sagði þetta bara gott og er mjög sáttur með þá ákvörðun, og fór að einbeita mér að öðru í lífinu. Skórnir eru sem sagt alveg komnir uppá hillu: En ég ætla að fara að einbeita mér að þjálfun því það er mikill áhugi þar.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Ég held að það þýði ekkert að spyrja pabba (Gísla Sigurðsson) en ég held ég láti reyni á það. Hann gæti kannski svarað einni spurning á milli funda.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Er þjálfaramappan týnd? Á ekki að dusta rykið af henni og koma Tindastól í fremstu röð?

Áður birst í 10. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir