Afhending miða á jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks hefst í hádeginu
Rótarýklúbbur Sauðárkróks ætlar að efna til ókeypis jólahlaðborðs í íþróttahúsinu á Sauðárkróki 30. nóvember nk. þar sem alls verður boðið sjöhundruð manns til sætis. Viðburðurinn er ætlaður sem samfélags- og styrktarverkefni en mörg fyrirtæki koma að verkefninu og munu hlaðborðin svigna undan girnilegum veitingum. Þá mun tónlistarfólk búa til fallega stemningu til að gera stundina eftirminnilega.
-Við vonum að allir taki þessu framtaki vel og við náum að fylla húsið. Miðar verða afhentir á morgun, föstudag, í bönkunum þremur á Króknum og byrjum við á því kl. 12:15. Líklega verður miðafjöldi á hvern einstakling þó eitthvað takmarkaður. Eins og komið hefur fram er ókeypis á þetta en í íþróttahúsinu verður hinsvegar söfnunarkassi þar sem fólk getur sett einhverja aura ef það getur og vill.
Rótarýklúbbarnir eru margir hverjir með hin ýmsu samfélagsverkefni og er þetta verkefni Rótarýklúbbs Sauðárkróks í stærri kantinum en hugmyndin kom upp innan klúbbsins og var samþykkt að fara af stað.
-Það eru ekki allir í okkar samfélagi sem komast á jólahlaðborðin sem eru haldin út um allan fjörð og fyrir því eru margar ástæður. En að þessu sinni sitja allir við sama borð og við vonum svo sannarlega að við fáum þversnið af íbúum samfélagsins til að mæta.
Allt sem safnast mun fara til að hlúa enn betur að skjólstæðingum á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, segja Rótarýfélagar en ýtarlegra viðtal er við þá í Feyki sem kom út í gær.
