Aflraunakeppni Grettishátíðarinnar
Hörku keppni var í aflraunakeppni Grettishátíðar sem haldin var á sunnudegi Grettishátíðar þann 27. Júlí síðastliðinn. Sex konur og tíu karlar kepptu um verðlaun og titilinn Sterkastur í Húnaþingi vestra árið 2014. Keppt var í fimm þrautum; hleðslugrein, bíldrátt, axarlyftu, steinatökum og bóndagöngu.
Samkvæmt vef Grettistaks munaði ekki nema einu stigi í kvennaflokki á tveimur efstu konunum, en flest stig kvenna hlaut Hjördís Ósk Óskarsdóttir eða 27 talsins. Í öðru sæti með 26 stig varð systir hennar Hafdís Ýr og þriðja sætinu náði Inga Þóra Ingadóttir með 20 stig. Þó flestir keppendurnir væru mikið tengdir Húnaþingi vestra var það þó þannig að engin kona með lögheimili í sveitarfélaginu skráði sig í keppnina og því var Grettisbikar kvenna ekki veittur þetta árið.
Í Karlaflokki var heldur meiri munur á keppendum, en 10 karla skráðu sig til keppni og luku allir keppni. Heimamaðurinn Reynir Guðmundsson sigraði keppnina með nokkrum yfirburðum eins og í öll þau skipti sem hann hefur tekið þátt. Reynir endaði með 47 stig og fékk að launum Grettisbikarinn og titilinn Sterkastur allra í Húnaþingi vestra. Í öðru sæti varð Austur-Húnvetningurinn Magnús Valsson með 37 stig og í þriðja sæti varð Þorbergur Guðmundsson með 35 stig.