Afurðamiklir Skagfirðingar
Hóll í Sæmundarhlíð í Skagafirði er afurðahæsta kúabú landsins, samkvæmt uppgjöri afurðaskýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir árið 2010. Kýrin Örk frá Egg í Hegranesi sú afurðahæsta og Skagafjörður afurðahæsta uppgjörssvæðið.
Hjá þeim Jóni Grétarssyni og Hrefnu Hafsteinsdóttur bændum á Hóli, mjólka 34,4 árskýr að meðaltali 7.818 kg sem er það hæsta sem gerðist á landinu árið 2010 en einnig má nefna að kýrin Trú sem er í fjósinu á Hóli var fjórða afurðahæsta kýrin. Jón segir árangurinn samspil margra þátta. Á búinu séu góðar kýr sem eru heilbrigðar og hraustar og fóðrunin hafi mikið að segja. –Við höfum góðan ráðunaut sem gott er að leita til í sambandi við fóður áætlanir og svo skiptir máli að við Hrefna erum bæði í þessu af fullum áhuga, segir Jón en einnig telur hann aðbúnaðinn góðan þó fjósið sé gamalt. Til stóð að breyta fjósinu, sem er básafjós með brautarkerfi, og setja upp róbótakerfi en efnahagshrunið kom í veg fyrir það og verður beðið með frakvæmdir að sinni.
Kýrin Örk frá Egg í Hegranesi er afurðahæsti gripurinn á skýrslu árið 2010 og mjólkaði hún 12.418 kg. Örk var einnig afurðahæst tvö árin þar á undan. Annað árið í röð er Skagafjörður afurðahæsta uppgjörssvæðið með 5.817 kg/árskú en fast á hæla þeirra koma Austur-Skaftafellssýsla og Snæfellsnes.