Alþjóðleg ferðamálaráðstefna um allan Fjörð
feykir.is
Skagafjörður
11.06.2013
kl. 13.27
Ferðamáladeild Háskólans á Hólum er gestgjafi North Atlantic Forum 2013: Rural tourism - Challenges in changing times dagana 13.-15.6. n.k. Ráðstefnan fer fram víða um Skagafjörð og Siglufjörð, en erindi verða haldin á Hólum, í Miðgarði, í Kakalaskála, á Bæ á Höfðaströnd, á Siglufirði og í Árgarði. Þannig fá ráðstefnugestirnir sem eru frá öllum heimsálfum, tækifæri til að kynnast af eigin raun ferðaþjónustu í íslensku dreifbýli.
Erindi og vinnustofur eru fræðileg og hagnýt; netmarkaðssetning, hestaferðaþjónusta, strandmenning, jarðvangar, hönnun upplifunar, klasasamstarf, matarferðamennska, menningarsetur, áhrif ferðaþjónustu á íbúa og viðhorf íbúa til ferðaþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Auk þess er menningardagskrá úr héraði hluti þeirrar upplifunar sem ráðstefnugestum er boðið uppá.
North Atlantic Forum 2013 nýtur stuðnings sveitarfélaganna Skagafjarðar og Fjallabyggðar, utanríkis- og atvinnuvegaráðuneyta, Ferðamálastofu, Ferðaþjónustu bænda, Failté Ireland, Menningarráðs Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum. Ráðstefnan er sú fjórða í röð North Atlantic Forum, en sú næsta verður á Prince Edward Island í Kanada 2015. Ráðstefnurnar fjalla alltaf um þemu varðandi efnahagslíf og búsetu í dreifðum byggðum við Norður-Atlantshaf. Aðstandendur ráðstefnunnar leggja mikla áherslu á fjölbreytta dagskrá, jafnvægi milli fræða og framkvæmda í dagskránni og síðast en ekki síst; kynni þátttakenda af aðstæðum á viðkomandi ráðstefnustað.
Lykilfyrirlesarar eru Arvid Viken frá Tromsö, Noregi; Godfrey Baldacchino frá Prince Edward Island, Kanada, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Gunnar Þór Jóhannesson, Háskóla Íslands. Það er Ferðamáladeild Háskólans á Hólum mikið ánægjuefni að taka á móti ráðstefnunni og eiga samtal við sérfræðinga á sviði ferðaþjónustu í dreifbýli víða að úr heiminum.