Annað smit greinist á Hvammstanga

Frá Hvammstanga. Mynd:FE
Frá Hvammstanga. Mynd:FE

Kórónuveirusmit á Norðurlandi vestra eru nú orðin tvö eftir að nýtt smit greindist á Hvammstanga eftir sýnatöku í gær. Eins og fram hefur komið eru nú um 230 manns í Húnaþingi vestra í sóttkví eða um fimmtungur íbúa sveitarfélagsins. Ekki er þó talið að sú tala komi til með að hækka mikið þrátt fyrir að annar einstaklingur hafi greinst.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, segir í samtali við Ríkisútvarpið í dag að þetta nýja smit tengist ekki grunnskólanum með beinum hætti og starf og aðstæður viðkomandi væru þannig að ólíklegt væri að margir þyrftu að fara í sóttkví vegna þess. Enn eru nokkur sýni í greiningu og munu niðurstöður væntanlega berast síðar í dag.

Þriggja manna vettvangsstjórn í sveitarfélaginu fundar nú daglega til að meta ástandið. Hún er skipuð fulltrúum Húnaþings vestra, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Hvammstanga og lögreglustjórans á Norðurlandi vestra að því er segir á vef RÚV.

Ragnheiður Jóna segir í pistli á vef sveitarfélagsins í gær að rétt sé að árétta að ekki hafi greinst fleiri smit í sveitarfélaginu en annars staðar á landinu. „En rétt er að hafa í huga að í svona litlu samfélagi þá er grunnskólinn stæsti vinnustaðurinn, nemendur kennarar og starfsfólk eru 220 manns, því vegur svona hann mikið í tölfræðinni,“ segir Ragnheiður Jóna. Áhrifanna gæti víða þegar svo stór vinnustaður fer í sóttkví, foreldrar með ung börn þurfi að vera heima, aðrir megi ekki fara að heiman vegna sóttkvíar.

Í gær barst sveitarstjóra bréf frá forseta Íslands sem sendir íbúum sveitarfélagsins hlýjar kveðjur og góðar óskir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir