Annasöm vika hjá björgunarsveitinni Húnum
Björgunarsveitin Húnar hafði í nógu að snúast í síðustu viku, en auk þess að laga, bæta og yfirfara merkingar á Vatnsnesfjalli fyrir Fjallaskokkið og sjá um flugeldasýninguna í tengslum við opnunarhátíð Elds í Húnaþingi, voru þrjú útköll þar sem bílar höfðu ýmist fest sig eða farið útaf.
Á vef björgunarsveitarinnar kemur fram að síðastliðinn þriðjudag óskaði lögreglan eftir að sveitin aðstoðaði ferðafólk sem var í vandræðum á Víðidalstunguheiði, en þau höfðu fest sig í drullupytti á veginum inni á heiðinni, um 29 km framan við Hrappstaði. Þónokkuð vesen var að ná bílnum upp og tók það um eina og hálfa klukkustund.
Á miðvikudeginum barst önnur beiðni um aðstoð en þá var annar bíll með ferðafólki fastur í sama pytti á Víðidalstunguheiði. Betur gekk að ná þessum bíl upp þar sem hann var heldur léttari.
Eftir hádegi á föstudaginn kom svo beiðni um verðmætabjörgun á Holtavörðuheiði, en flutningabíll með trailer lenti utan vegar við Bláhæð. Unnið var við losun farmsins og að ná bílnum upp á veg frameftir kvöldi.