Appelsínugul viðvörun um land allt

Skjáskot af Veðurstofunnar. Vindaspá klukkan 9 í fyrramálið.
Skjáskot af Veðurstofunnar. Vindaspá klukkan 9 í fyrramálið.

Landsmenn búa sig nú undir ofsaveður sem ganga mun yfir landið í nótt og á morgun og hefur Veðurstofa Íslands gefið út appelsínugula viðvörun um land allt. Ört dýpkandi lægð nálgast nú landið og reiknað er með að í nótt hvessi mikið og gangi í austan rok eða ofsaveður með morgninum.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í dag bæti smám saman í vind og í kvöld megi búast við austan 10-23 m/s, hvassast syðst á landinu með snjókomu og frosti á bilinu 1 til 7 stig. Norðaustanlands verði hægur vindur í allan dag og kaldara. Í nótt hvessir mikið og snemma í fyrramálið má víða búast við austan roki eða ofsaveðri, en jafnvel fárviðri í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða er útlit fyrir slyddu eða snjókomu og verður úrkoman mest á sunnan- og austanverðu landinu.
„Seinnipartinn á morgun snýst í sunnan hvassviðri sunnantil landinu með rigningu á láglendi þar sem hefur hlýnað vel uppfyrir frostmark. Þá verður hinsvegar áfram austan rok og ofankoma um landið norðanvert með hita nálægt frostmarki. Annað kvöld batnar veður hins vegar svo um munar á öllu landinu þegar vind lægir og dregur úr úrkomu. Undir miðnætti er útlit fyrir strekkingsvind um mestallt land sem væntanlega á eftir að virðast sem logn eftir það sem á undan er gengið," segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi um land allt. Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að ákvörðunin sé tekin í samráði við alla lögreglustjóra landsins og í samræmi við veðurspá Veðurstofu Íslands. Óvissustigi er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað geti gerst af náttúru- eða mannavöldum, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað. Samráð er á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar er aukið.
Fólk er hvatt til að fylgjast með frekari upplýsingum frá almannavörnum, á Facebook  https://www.facebook.com/Almannavarnir um veðurspá á www.vedur.is, færð á vegum á vefsíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is.

Vegagerðin birtir á vef sínum yfirlit yfir þá vegi sem eru á óvissustigi vegna óveðursins. Líklegt má telja að til lokana komi á mörgum þeirra en endanleg

Yfirlit yfir hugsanlegar lokanir Vegagerðarinnar.

ákvörðun um lokun og síðan opnun aftur er tekin í hverju tilviki fyrir sig. Þar kemur m.a. fram að veginum um Holtavörðuheiði og Vatnsskarð verði lokað klukkan 4:00 í nótt og Öxnadalsheiði klukkan 6:00. Listann má nálgast hér http://www.vegagerdin.is/ferdaupplysingar/frekari-upplysingar/nr/25969/ . Einnig er hægt að hringja í upp­lýs­ingasíma Vegagerðarinnar í númerið 1777.

Neyðarstjórn Landsnets kom saman í morgun og var ákveðið að lýsa yfir óvissustigi. Allar viðbragðsáætlanir hafa verið virkjaðar en hætta er á margháttuðum truflunum í flutningskerfinu vegna óveðursins.
Í tilkynningu sem Landsnet sendi frá sér segir að hætta sé á truflunum á Suður-, Suðaustur- og Vesturlandi snemma í fyrramálið og fram yfir hádegi. Undir hádegi verður mikið vindálag á línum á Norður-  og Austurlandi og á Vestfjörðum. Landsnet hvetur alla til að fylgjast með tilkynningum á www.landsnet.is, Facebook og í Landsnetsappinu. 

Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst á morgun og líkur eru á að ferðir Strætó á landsbyggðinni raskist. Ákveðið var að bæta við aukaferð hjá Strætó í dag á leið 57 milli Reykjavíkur og Akureyrar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir