Appelsínugult enn og aftur

Skjáskot af vef Veðurstofunnar.
Skjáskot af vef Veðurstofunnar.

Veðurstofan hefur gefið út viðvörun eina ferðina enn. Að þessu sinni er viðvörunin appelsínugul fyrir svæðið frá Snæfellsnesi austur að Langanesi, að miðhálendinu meðtöldu, en gul fyrir aðra landshluta.

Appelsínugul viðvörun fyrir Strandir og Norðurland vestra gildir frá klukkan tvö í nótt til klukkan tíu í fyrramálið. Eftir það tekur við gul viðvörun sem gildir þar til annað kvöld. Á vef Veðurstofunnar segir að í nótt gangi í sunnan storm eða rok, 20-28 m/s. Búast megi við mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll sem geti náð vindhraðanum 35-45 m/s. Víðtækar samgöngutruflanir séu líklegar og ekkert ferðaveður verði á meðan viðvörunin er í gildi. Þá sé nauðsynlegt að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Í fyrramálið er gert ráð fyrir suðvestan 15-23 m/s og skúrum eða slydduéljum með hvössum vindstrengjum við fjöll, sums staðar yfir 30 m/s. Þá geta skapast varhugaverðar aðstæður, sérstaklega þar sem hált er.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir: 
„Við Nýfundnaland er nú 958 mb lægð og færist hún ákveðið til norðurs í dag og tekur stjórnina á veðrinu hjá okkur í kvöld. Þá fer að hvessa, þykkna upp og hlýna. Í nótt er útlit fyrir sunnan storm eða rok með talsverðri rigningu, en eins og svo oft í þessari vindátt er von á minni úrkomu norðaustantil á landinu. Á morgun snýst í suðvestan hvassviðri eða storm og áfram vætusamt veður og hitinn á bilinu 5 til 10 stig.
Það eru nokkur atriði sem helst ber að nefna þegar slíkar sviptingar í veðri eru í vændum:
-Leysingar- og regnvatn þarf að komast leiðar sinnar og þarf því að ganga úr skugga um að fráveitukerfi virki sem skildi til að forðast vatnstjón.
-Flughálka getur myndast þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó. Þegar einnig er hvass vindur eru aðstæður til aksturs mjög varasamar.
-Skammvinnt hríðarveður getur gert í nótt, áður en nær að hlýna og úrkoman færir sig yfir í rigningu. Þetta á sérílagi við á fjallvegum.
Annað kvöld fer að kólna aftur og á mánudag er hvöss suðvestanátt með snjóéljum í kortunum og hiti kringum frostmark."

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir