Áreittu stúlkur á Borgarsandi

Þrír menn eltu þrjár stúlkur sem voru að leik á Borgarsandi á Sauðárkróki sl. sunnudag. Stúlkurnar, sem eru á aldrinum 12 til 13 ára, forðuðu sér undan mönnunum og tilkynntu athæfið til lögreglu.

„Það var blístrað á þær og þeir fóru að elta þær, þær forðuðu sér yfir sandmönina nálægt Ernunni og hringdu á hjálp, enn með mennina á eftir sér. Þegar þær komust upp á reiðveginn kom fólk ríðandi og þá snéru mennirnir við og fóru niður í fjöru og ég kom augnabliki seinna og náði í þær,“ segir Halldór Bjarnason, faðir einnar stúlkunnar, í færslu á Facebook.

Þau svör fengust frá Lögreglunni á Sauðárkróki að mennirnir, sem eru að erlendu bergi brotnir, hafi fengið tiltal og þeim gert grein fyrir því að svona hegðun væri ekki liðin. Mennirnir töluðu ekki íslensku og takmarkaða ensku. Af gefnu tilefni vill lögreglan koma þeim skilaboðum áleiðis að árétta fyrir börnum að gefa sig ekki á tal við ókunnuga.

Halldór segist ekki vita hvað mönnunum gekk til í samtali við Feyki og hann sé ekki að leggja dóm á það en hvað sem því líður þá hræddu þeir stelpurnar og er dóttir hans nokkuð skelkuð eftir atvikið.

„Dóttir mín er ekki hrifin af því að vera ein úti eftir þetta, mér þætti betra að geta sagt henni að þeir væru farnir og það væri engin ástæða til að óttast þá. Ég myndi persónulega vilja láta fjarlægja þessa menn, setja frímerki á rassgatið á þeim og senda þá heim,“ segir Halldór að endingu.

Fleiri fréttir