Arnar með sigurmark Stólanna í sterkum sigri

Santiago Fernandez slær boltann frá marki Tindastóls. MYNDIR: ÓAB
Santiago Fernandez slær boltann frá marki Tindastóls. MYNDIR: ÓAB

Tindastóll og Fjarðabyggð mættust í 20. umferð 2. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu í dag á Sauðárkróksvelli. Ljóst var fyrir leikinn að lítið annað en sigur kæmi til greina hjá liði Tindastóls sem berst fyrir sæti sínu í deildinni en gestirnir að austan sigla lygnan sjó um miðja deild. Það hafðist hjá Stólunum, Arnar Ólafs gerði eina mark leiksins, og vonin lifir góðu lífi.

Aðstæður til tuðrusparks voru fullkomnar á Króknum í dag, bæði hlýtt og blankalogn. Lið Tindastóls varð að stíga upp eftir hörmungarleik gegn Leikni F. í síðustu umferð. Bæði Fannar Kolbeins og Arnar Skúli tóku út leikbann í dag og Hólmar Skúla var fjarri góðu gamni. Leikurinn var jafn og ágæt skemmtun en það voru þó gestirnir sem voru skeinuhættari og fengu stundum of langan tíma til að athafna sig fyrir framan vítateig Stólanna. Santiago varði vel snemma leiks en um miðjan fyrri hálfleik var dæmd hendi á kappann rétt utan teigs en aukaspyrnuna sendi Stojkovic beint í vegginn. Eftir þetta hertu Stólarnir sóknarleikinn og fengu tvö bestu færi leiksins í sömu sókninni sem var lagleg. Eftir skot úr teignum sem gestirnir komust fyrir fékk Lamanna boltann fyrir opnu marki en settann framhjá þegar auðveldara virtist að skora. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Leikurinn opnaðist meira í síðari hálfleik og sérstaklega voru það leikmenn Fjarðabyggðar sem voru klaufar að nýta ekki betur þá hálfsénsa sem gáfust. Stólarnir voru engu síður einnig hættulegir en þeim gekk illa að komast inn fyrir vörn gestanna. Á 68. mínútu fékk Páll Hróar Helgason, leikmaður Fjarðabyggðar, að líta sitt annað gula spjald eftir að Óskar Smári henti honum út af vellinum. Sennilega hafa það verið viðbrögð kappans sem kostuðu hann spjaldið og hann varð að yfirgefa völlinn þó honum þætti það nokkuð sárt. Eftir þetta mátti sjá að Stólarnir náðu undirtökunum en sem fyrr gekk illa að skapa alvöru færi. Sigurmark leiksins  kom á 85. mínútu en þá fékk Arnar Ólafs boltann eftir að Benni hafði lent í samstuði við vinstra vítateigshorn gestanna. Stólarnir vildu víti en dómarinn ákvað að sleppa því og Arnar lék aðeins inn á miðjuna og sveiflaði síðan hægri fætinum og dúndraði boltanum í fjær hornið. Frábært mark og gæti reynst gulls ígildi. Síðustu mínúturnar náðu Austfirðingarnir ekki að ógna marki Stólanna sem héldu boltanum vel og gáfu engin færi á sér. Lokatölur 1-0.

Það var pínu skjálfti í vörn Stólanna í dag en ekki vantaði seigluna og markið hélst hreint, ekki síst fyrir góðan leik Santiago Fernandez í markinu. Jón Gísli átti fínan leik og það vill oft gleymast að kappinn er aðeins 16 ára gamall – það er ekki að sjá. Konni var sömuleiðis traustur með honum. Benni og Lamanna reyndu hvað þeir gátu að ógna og opna vörn gestanna en hlutirnir voru ekki alveg að ganga upp að þessu sinni. Arnar sýndi góða takta inn á milli og hann átti 2-3 fín skot í leiknum. Frammistaða Stólanna var í heildina til fyrirmyndar og frábært að koma sterkir til baka eftir martröðina um síðustu helgi.

Í dag sigraði Höttur á Egilsstöðum lið Leiknis og eru Höttur og Tindastóll því jöfn með 18 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Leiknir er stigi fyrir ofan þannig að það eru þessi þrjú lið sem berjast um að halda sæti sínu í 2. deild. Næsti leikur Tindastóls er á Seyðisfjarðarvelli nk. laugardag en lið Hugins féll í dag. Þeir verða þó örugglega ekki á þeim buxunum að gefa neitt þannig að það má reikna með baráttuleik. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir