Arnar og Bjarki í liði ársins í 2. deild

Hin ágæta netsíða knattspyrnuunnenda á Íslandi, Fótbolti.net, stóð fyrir vali á liði ársins í 2. deildinni í sumar og voru niðurstöður kunngjörðar í gær. Tveir leikmenn Tindastóls/Hvatar komust í lið ársins; Bjarki Már Árnason varnarmaður og Arnar Sigurðsson sóknarmaður og eru þeir vel að heiðrinum komnir.

Þá náðu tveir leikmenn Tindastóls/Hvatar á varamannabekkinn; markamaskínan Gísli Eyland Sveinsson markvörður og Árni Einar Adolfsson miðjumaður.

Fjöldi annarra leikmanna liðsins hlaut atkvæði í valinu og kemur það reyndar spánskt fyrir sjónir að sumir leikmenn virðast hafa fengið atkvæði fyrir stöður sem þeir spiluðu ekki í. Atli Arnarson talinn varnarmaður og Aðalsteinn bróðir hans fékk atkvæði sem miðjumaður en þar lék hann aðeins í 15 mínútur í sumar og hefur því sannarlega nýtt tímann vel.

Það eru þjálfarar og fyrirliðar í 2. deild sem Fótbolti.net fékk til að velja lið ársins og fór valið fram áður en tímabilið var búið.  Það hefur kannski haft eitthvað um það að segja að Eysteinn Húni Hauksson þjálfari Hattar var valinn þjálfari ársins en Höttur endaði í 2. sæti í deildinni. Aðrir þjálfarar sem fengu atkvæði í valinu voru meistari Halldór "Donni" Sigurðsson (Tindastóll/Hvöt) og Jón Aðalsteinn Kristjánsson (Hamar).

Fleiri fréttir