Árskóli tekur þátt í Göngum í skólann

Verkefnið Göngum í skólann fyrir grunnskólanemendur hófst í síðustu viku og er Árskóli á meðal þeirra skóla sem taka þátt í verkefninu. Sigríður Inga Viggósdóttuir hjá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands hvetur fleiri skóla á Norðurlandi vestra til að þátt í þessu verkefni, enda víðast hvar afar stutt á milli staða og því ekki langt að fara í skólann.

Markmið beggja verkefnanna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Með virkum ferðamáta er átt við að koma sér á milli staða með eygin afli s.s. ganga, hjóla, hlaupa, fara á hjólabretti o.s.frv. Einnig er hagkvæmt að notast við skólarútu/strætó.

„Þau börn sem þurfa að fara um langan veg í skólann gætu samið við rútubílstjórann að stoppa aðeins lengra frá skólanum. Þannig gætu þau gengið síðustu vegalengdina og tekið þannig þátt í verkefninu - og fengið smá auka hreyfingu áður en þau mæta í skólann. Um leið og umferðarþungi minnkar við skólana þá eykst umferðaröryggi barnanna,“ segir Sigríður.

Þetta er í áttunda skiptið sem Ísland tekur þátt í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka farið stöðugt vaxandi. Hér á landi fer skráning skóla mjög vel af stað, enn geta skólar bæst í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 8. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 8. október nk.

Skólar geta ennþá skráð sig til leiks, nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu í Göngum í skólann.

Fleiri fréttir