Ásgeir Trausti grefur tunglið

Ásgeir Trausti. MYND AF NETINU
Ásgeir Trausti. MYND AF NETINU

Í byrjun febrúar kom út þriðja breiðskífa Ásgeirs Trausta frá Laugarbakka í Húnaþingi vestra. Platan kom út samtímis á íslensku og ensku sem verður að teljast ansi magnað. Á íslensku kallast platan Sátt en Bury the Moon er enski titillinn. Eins og við eigum að venjast af spjótkastaranum fyrrverandi þá er tónlistin fögur í tærleika sínum og í senn nútímaleg og forn – sem er gott.

Líkt og áður eru gítarinn og píanó í forgrunni ásamt falsettusöng Ásgeirs og oftar en ekki er þessi heilaga þrennig bökkuð upp með elektrónískum effektum á einstaklega smekklegan hátt. Þessi kokteill svínvirkar.

Platan nýja inniheldur ellefu lög og er nokkuð augljóst að Ásgeir Trausti hefur leitað í upphafið. Sátt er töluvert líkari fyrstu plötu hans, Dýrð í dauðaþögn (2012), en Afterglow, sem kom út fyrir þremur árum. Eftir fyrstu hlustanir eru lögin Bernska (Youth), Myndir (Pictures), Upp úr moldinni (Lazy Giants), Hringsól (Until Daybreak) og Lifandi vatnið (Living Water) orðin eyrnavinir góðir. Upptökustjórn var í höndum Ásgeirs og Guðmundar Kristins Jónssonar líkt og á fyrri útgáfum.

Í viðtali við Atwood Magazine segir Ásgeir: „Ég hef alltaf haft þessa þörf fyrir að semja lög og af mismunandi ástæðum. Stundum er það bara mér til ánægju, vegna þess að þetta er það sem ég elska að gera, og stundum er eitthvað annað sem knýr mig – eins og ást, eða ástarsorg eða söknuður.“ 

Fram kemur í viðtalinu að lögin á Sátt hafi verið samin yfir langan tíma. Aðspurður hvort hann semji textana fyrst á íslensku svarar hann: „Ég sem textana vanalega eftir að lagið verður til og yfirleitt verður íslenski textinn til fyrst. Ég hef unnið náið með pabba mínum [Einar Georg Einarsson], sem er skáld, og með vini mínum, Júlíusi [Aðalsteini Róbertssyni], við textagerð og pabbi semur að minnsta kosti aðeins á íslensku.“

Um þessar mundir stóð til að Ásgeir og félagar væru að kynna nýju plötuna með tónleikum í Ástralíu og Kanada og síðar í Evrópu og á Nýja Sjálandi en tónleikahald er nú allt í uppnámi sökum COVID-19 faraldursins. Hefur tónleikum verið frestað og óvíst hvenær Ásgeir Trausti getur tekið upp þráðinn á ný. 

Síðastliðið fimmtudagskvöld héldu hann og Júlíus þó tónleika í Hljómahöllinni í Keflavík fyrir tómu húsi en tónleikarnir voru sendir út á Facebook og er hægt að kíkja á þá með því að smella hér. Reyndar gerist ekkert á fyrstu tæpu 29 mínútum myndskeiðsins en þar á eftir fara þeir félagar á kostum.

- - - - -

Myndband með laginu Youth >

Myndband með laginu Lazy Giants >

Átta ára gömul Tón-lyst með Ásgeiri Trausta á Feykir.is >

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir