Takk fyrir mig Skagafjörður- Áskorendapenninn Árni Gísli Brynleifsson brottfluttur Skagfirðingur

Árni Gísli Brynleifsson
Árni Gísli Brynleifsson

Hér kemur nafnið á áskorendapennanum og pistillinn sjálfur, vegna mistaka þá kom nafnið ekki í blaðið. Feykir vill biðjast afsökunnar á þessum mistökum.

Árni Gísli Brynleifsson: Takk fyrir mig Skagafjörður

„Mikið svakalega hlýtur maður nú að vera orðinn fullorðinn“ voru mín fyrstu orð þegar Brynjar „köttur“ hafði samband við mig um daginn. Að fá áskorendapennann frá gamla góða héraðsblaðinu var nefnilega, hélt ég, merki um að maður væri annað hvort orðinn fullorðinn eða þá frægur. Ég er að minnsta kosti ekki frægur, held ég, þannig að ég hlýt þá að vera orðinn ágætlega fullorðinn, a.m.k. í árum talið þó hugurinn sé kannski ekki kominn þangað ennþá.

Um kvöldið fór ég að láta hugann reika, hvað það væri sem fólk vildi lesa í svona pistli?  Hugleiðingar? Bernskubrek? Pólitík? Nei, „hans-í-koti, ég fer nú ekki að röfla yfir pólitík. Daginn eftir vill síðan svo til að ég er spurður hverjir hafi verið áhrifavaldar í mínu lífi, þá mundi ég eftir því hversu heppinn ég hef verið alla mína ævi. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að maður muni eftir sínum áhrifavöldum hvort sem það var í einkalífi eða úr vinnu. Ég ólst upp í Hjaltadal, eða eins og Pálmi heitinn í Garðakoti sagði alltaf „Dalnum sem Guð skapaði“. Allt frá unga aldri var ég frekar duglegur að stökkva á milli bæja til að aðstoða, ég hélt a.m.k. að ég væri að aðstoða. Þetta varð til þess að ég kynntist frábærum persónuleikum sem allir höfðu áhrif á mig á einn eða annan hátt; Pálmi í Garðakoti, Valdi á Reykjum, Hörður á Hofi, Árni Ragnars, sem var skólabílstjóri, fjárbóndi og síðar kúabóndi á Laufskálum, Halli í Enni og svona mætti lengi telja en ég held að enginn verði sár þó ég nefni sérstaklega Gunnar í Víðinesi en sögurnar hans og þekking héldu athygli minni langt fram á unglingsárin. Það sakaði ekki (eftir að ég fékk aldur) að hann átti ekki alltaf bara mjólk til að kæla kaffið og urðu sögurnar ávallt enn betri þegar leið á kaffiboðið, þó svo að minnið hafi kannski ekki alltaf verið gott eftir það.

Árni Gísli ásamt fjölskyldu sinniÁrni Gísli ásamt fjölskyldu sinni

Þegar ég sleit nafnastrenginn frá dalnum fagra fór ég vestur yfir vötn og hóf að vinna fyrir einhvern aur. Þá kynntist ég einnig frábæru fólki og ber þar að nefna Vigni, Halla húmorista, Leif og Sigga á sláturhúsinu, Stebba Skarp á höfninni, Úlfari á Ingveldarstöðum, Bjössa í íþróttahúsinu en sérstaklega langar mig að nefna þau Maríu Björk og Jón Dan. María Björk greip mig inn í „Féló á sínum tíma og kynnti mig fyrir ótal mörgu frábæru fólki sem ég fékk að læra svo margt af. Tíminn með Maríu Björk og öllu hinu fólkinu í Féló” var bæði þroskandi og lærdómsríkur. Jón Dan, ég hugsa að ég sleppi því nú að segja nákvæmar sögur af þeim vinnustað sem Kaffi Krókur var í þá daga en þetta var algerlega frábær vinnustaður. Ég man aldrei eftir að mér hafi leiðst í vinnunni og ég man heldur ekki eftir að hafa fengið vinnuleiða eða neitt slíkt. Ég sakna virkilega samverunnar með þeim Jóni og Öldu þegar ég vann fyrir þau í hádeginu. Algerlega yndislegt fólk þar á ferðinni.

Ef ég yrði spurður í dag hverjir höfðu mest mótandi áhrif á mig á unglingsárunum og þegar ég steig mín fyrstu skref á vinnumarkaði, þá hugsa ég að svarið yrði foreldrar mínir og systur, Jón Dan, María Björk, Bjössi í íþróttahúsinu að ógleymdum Gunnari í Víðinesi en þessi listi er bara brot af því fólki sem mig langar að nefna. Því heila málið er, við erum þau sem við umgöngumst og við mótum öll hvert annað, svo mikið er víst.  Ætli ég sé ekki að reyna að segja „TAKK“ Skagafjörður.

Ég ætla að skora á hana Þórdísi Ágústsdóttur til að grípa pennann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir