Áskorendapenninn - Stækkandi samfélag, aukin jákvæðni og samheldni.

Freyja Ólafsdóttir skrifar:

Ég er fædd á Sauðárkróki og átti heima mína fyrstu mánuði á Tyrfingsstöðum á Kjálka í Skagafirði. Á Sauðárkróki ólst ég upp og fór út til Sviss á 18. afmælisdaginn minn.

Að vera alin upp í kaupstað í nánum tengslum við sveitina og hafa prófað að búa erlendis, hefur kennt mér víðsýni sem ég hef búið að alla mína ævi. Menningin, nálægðin og tengslin sem ég ólst upp við hefur gefið mér styrk og þor í gegnum tíðina. Það að þora, hafa metnað og vilja til þess að verða eitthvað var minn drifkraftur. Sennilega er hann þarna einhvers staðar ennþá.

Eftir að ég kom frá Sviss fór ég í matreiðslunám til Reykjavíkur en kom þó aftur stuttan tíma til Sauðárkróks þar sem eldri sonur minn fæddist. En ég vildi aftur suður að klára það sem ég byrjaði á sem ég og gerði. Eftir að hafa átt heima á stór- Reykjavíkursvæðinu í 25 ár kom ég aftur norður þá einnig búin að mennta mig til kennara. En ekki alla leið í Skagafjörðinn heldur í Austur-Húnavatnssýslu í Bólstaðarhlíð. Var ég margspurð af Skagfirðingum hvort það væri ekki erfitt að vera þarna öfugu megin við sýslumörkin. Reyndin er sú að samfélagið er meira og minna að verða að einni heild a.m.k. í mínum huga. Sveitarfélög eru að sameinast og rekstur ýmis konar þjónustu hefur runnið saman með alls kyns samstarfi meðal sveitarfélaga og fyrirtækja.

Við þegnar samfélagsins þurfum ekkert alltaf að vera sammála en umfram allt þurfum við að vera sjálfum okkur samkvæm. Í raun vilja allir sjá samfélagið sitt vaxa og dafna. Við viljum vera samfélag sem börnin okkar vilja búa áfram í, skapa tækifæri og þá möguleika á atvinnutækifærum sem þeim hugnast. Breytingar taka á en langoftast má nýta þær til hagsbóta og framfara.

Sá lærdómur sem ég hef dregið af lífinu í bæ, borg og í sveit hefur kennt mér að því betur sem náunganum vegnar, því betri verða tækifærin fyrir alla þegna samfélagsins. Ef okkur langar til að gera eitthvað, látum verða af því. Stöndum ekki í vegi fyrir auknum tækifærum með öfund, reynum heldur að fagna nýjum hugmyndum og skrefum, hvoru megin sýslumarkanna sem við erum. Oft kemur það ekki í ljós fyrr en löngu síðar hvort hugmyndir og tækifæri lifa áfram eður ei. Það hefur verið gaman að sjá miklar og jákvæðar breytingarnar hér fyrir norðan og ég hlakka til að sjá hvernig okkur tekst til í náinni framtíð.

 

Ég skora á Önnu Margréti Sigurðardóttur að taka við pennanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir