Atli orðinn markahæstur HK-manna í efstu deild

Atli Arnarson. MYND AF NETINU
Atli Arnarson. MYND AF NETINU

Atli Arnarson hefur verið á skotskónum, eða kannski helst vítaspyrnuskónum, það sem af er tímabilinu í Pepsi Max deild karla. Atli er Króksari, sonur Möggu Aðalsteins og Ödda læknis Ragnarssonar og því alinn upp með Tindastólsmerkið á brjóstinu. Atli skoraði í vikunni tvö mörk fyrir lið sitt HK gegn ÍA á Skipaskaga og varð þar með markahæsti leikmaður HK í efstu deild, frá upphafi, með átta mörk.

Atli verður 27 ára á árinu og hóf meistaraflokksferilinn 15 ára gamall með sínu uppeldisfélagi, Tindastóli, þar sem hann spilaði m.a. með bræðrum sínum Alla og Árna. Eftir hörmuleg meiðsli sumarið 2013 gekk hann til liðs við Leikni í Reykjavík þar sem hann spilaði tvö sumur, þá skipti hann yfir í ÍBV og nú er hann með HK í Kópavoginum. Atli er vel spilandi miðjumaður og spyrnumaður góður en í 198 meistaraflokksleikjum hefur hann skorað 32 mörk og þar af eru fjögur komin nú í sumar. Feykir lagði örfáar spurningar fyrir Atla.

Hvernig er formið á þér nú í upphafi móts og hvert er markmiðið hjá liði HK? Formið er að verða fínt. Ég tognaði í lærinu 3 vikum fyrir mót og missti af byrjuninni en ég er að komast í fínt form held ég. Markmið okkar er að gera betur en í fyrra og reyna að blanda okkur í efri hlutann.

Hvernig tilfinning er það að vera orðinn markahæsti leikmaður HK í efstu deild? Það er ágætis tilfinning bara. Þessi titill, ef svo má segja, ber þess nú reyndar merki að HK hefur ekki spilað mörg tímabil í efstu deild en samt sem áður bara gaman að þessu og vonandi nær maður að bæta við þetta.

Þú ert ekkert að fagna mörkunum þínum með miklum látum. Er einhver fyrirmynd af þessum fögnum eða ætlarðu að fara að krydda þetta eitthvað á næstunni? Ég hef nú ekki mikið pælt í þessu en það er kannski eitthvað sem maður þarf að skoða. Spurning hvort að maður geti skráð sig á eitthvað námskeið í því.

Það er mikið skorað í Pepsi Max-deildinni. Hvað er í gangi? Það er góð spurning. Ég ætla nú ekki að þykjast vera með nákvæmt svar við því en mögulega tengist það því eitthvað að liðin koma ekki í eins góðu leikformi inn í mótið vegna Covid pásunnar. Sumir leikir hafa verið mjög opnir og liðin kannski ekki náð eins góðum undirbúning og þau hefðu viljað.

Hvaða liði spáirðu meistaratitlinum í haust? Spái okkur í HK að sjálfsögðu titlinum en ef við tökum þetta ekki þá eru Valur eða Breiðablik líkleg.

Feykir þakkar Atla fyrir spjallið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir