Atvinnuleitendur fá desemberuppbót

Atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins fá eingreiðslu í desember samkvæmt tillögu Guðbjarts Hannessonar, félags- og tryggingamálaráðherra, sem ríkisstjórnin samþykkti þann 1. des. Full uppbót er 44.857 krónur en greiðsla hvers og eins reiknast í hlutfalli við rétt hans til atvinnuleysisbóta árið 2010. 

Hverjir fá greitt ?
Uppbótin verður greidd þeim atvinnuleitendum sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa staðfest atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember–5. desember á þessu ári og ræðst heildarfjárhæðin af fjölda daga sem viðkomandi hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun.

Hvenær verður greitt?
Vinnumálastofnun annast útborgun eingreiðslnanna og verða þær greiddar út í síðasta lagi 31. desember næstkomandi. Ekki þarf að sækja um eingreiðslu.

Upphæð greiðslu
Heildarfjárhæðin ræðst af fjölda daga sem viðkomandi hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun. Þeir sem hafa verið skráðir án atvinnu í samtals tíu mánuði árið 2010 og eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins fá óskerta eingreiðslu, samtals 44.857 krónur. Þeir sem hafa ekki verið tryggðir að fullu, heldur hlutfallslega innan atvinnuleysisbótakerfisins, fá greidda eingreiðslu í samræmi við tryggingarhlutfall sitt. Sama máli gegnir um þá sem eru að fullu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins en hafa aðeins verið hluta ársins án atvinnu.

Eingreiðsla miðað við óskert tryggingarhlutfall verður aldrei lægri en 11.214 krónur og getur eingreiðsla miðað við skert tryggingarhlutfall að lágmarki numið fjórðungi þeirrar fjárhæðar.

Fleiri fréttir