Aukinn byggðakvóti

Byggðakvóti hefur nú verið aukinn um 17% um leið og reglum um úthlutun hans hefur verið breytt til þess að bæta nýtingu þessa úrræðis. Með þessu vill ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála efla atvinnu og mæta vanda smærri byggðalaga sem misst hafa frá sér veiðiheimildir.

Með lagabreytingum er nú heimilt að færa byggðakvóta milli fiskveiðiára og sömuleiðis er nú heimilað að úthluta byggðakvóta til útgerða sem ekki leggja upp annan afla í viðkomandi byggðalagi. Til þess þurfa sveitarfélög þó að sækja um undanþágu frá gildandi reglum og það er mikilvægt að forystumenn þeirra kynni sér til hlýtar þær reglur sem hér gilda.

Með bréfi ráðuneytisins sem sent var út nú laust fyrir jól eru sveitarfélögin jafnframt hvött til að horfa sérstaklega á verðmætaaukningu og atvinnusköpun í landi þegar reglur um ráðstöfun byggðakvóta eru mótaðar.

Undanfarin ár hafa verið brögð að því að ekki hafi tekist að nýta byggðakvótann að fullu og þar meðal annars staðið í vegi fyrrgreindar reglur um tilflutning veiðiheimilda milli ára og reglan um hina tvöföldu löndunarskyldu.

-Sem ráðherra þessa málaflokks treysti ég á forystumenn og atvinnulíf hinna smærri byggðarlaga nýti sér þær breytingar sem nú eru orðnar og tryggi eftir því sem kostur er að byggðakvótinn nýtist við almenna atvinnuuppbyggingu og eflingu smærri byggðarlaga, segir Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fleiri fréttir