Aurskriður féllu á Reykjastrandarveg
Eftir mikla úrhellis rigningu sem gekk yfir landið um helgina féllu aurskriður á veginn utan Ingveldarstaða á Reykjaströnd í Skagafirði. Vegfarendur eru beðnir um að láta ekki freistast að skoða ummerki þar sem miklar aurbleytur eru á veginum og hafa bílar setið fastir í forinni.
Eftir því sem Feykir kemst næst varð ferðafólk innlyksa á Reykjum en verktakar stungu í gegn og aðstoðuðu fólkið að komast sína leið. Verið er að vinna við opnun vegarins en óvíst er hvenær umferð verður leyfð á ný. Hægt er að fylgjast með því á vef Vegagerðarinnar eða Facebook-síðu ferðaþjónustunnar á Reykjum.
Þá eru vegfarendur beðnir að sýna aðgát á Sauðárkróksbraut (75) þar sem unnið verður við fræsingu næstu tvær vikur, frá Sæmundarhlíðarafleggjara að Ögmundarstöðum.