Bæjarhátíðir á Norðurlandi vestra í sumar

Norðurland vestra. Mynd: wikipedia
Norðurland vestra. Mynd: wikipedia

Nú er sumarið að ganga í garð og allt sem því fylgir og þar á meðal bæjarhátíðir. Í sumar er fyrirhugað að halda þrjár bæjarhátíðir á Norðurlandi vestra; Hofsós Heim á Hofsósi, Húnavaka á Blönduósi og Eldur í Húnaþingi í Húnaþingi vestra. Feykir hafði samband við skipuleggjendur hátíðanna og kynnti sér þær nánar.


Hofsós heim
Fyrst í röðinni verður bæjarhátíðin Hofsós heim haldin dagana 25. – 27. júní á Hofsósi. Nefndin er vongóð að halda megi hátíðina í ár en dagskráin verður þó í takt við gildandi sóttvarnarreglur og fjöldatakmarkanir.
„Það má segja að Þórólfur sóttvarnarlæknir sé meðstjórnandi en hann ræður miklu um það hvað verður hægt að bjóða gestum upp á.“ Segir Auður Björk Birgisdóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar.

Dagskráin enn í mótun, en fastir liðir eins og söguganga, barnadagskrá og varðeldur verða á sínum stað. Skipuleggjendur hátíðarinnar leggja mikið upp úr því að vera í góðu samstarfi við fyrirtæki, einstaklinga og félagasamtök á Skagafjarðarsvæðinu og hvetja þau hér með aðila að hafa samband ef þeir hafa áhuga á að hafa uppákomu eða viðburði á hátíðinni.
„Við erum viss um að fólk sé komið í mikla þörf fyrir að hittast og eiga saman góða stund eftir skrítna og hálf tilbreytingarlitla mánuði undanfarið. Við hlökkum allavega mikið til að gera okkur dagamun í okkar heimabyggð.“ Segir Auður vongóð.

 

Húnavaka
Stefnt er að því að halda Húnavöku dagana 15. – 18. júlí í samræmi við þær takmarkanir sem verða á þeim tíma. Það er ekki komin heildarmynd a hátíðina ennþá, en hún mun verða með hefðbundnu sniði eins og vanalega en þó með nýjum viðburðum í bland við gamla. Skipulagningarnefnd Húnavöku stefnir á að vera komin með ágætis drög að hátíðinni í lok þessarar viku.





Eldur í Húnaþingi

Eldur í Húnaþingi verður haldin í Húnaþingi vestra dagana 19. – 25. júlí og komin er góð heildarmynd á hátíðina. Hátíðinni verður þjófstartað mánudaginn 19. Júlí með tónleikum Svavars Knúts í mjólkurhúsinu á Stóru-Ásgeirsá. Fastir liðir verða á sínum stað eins og Melló músíka á fimmtudeginum þar sem íbúar Húnaþings vestra, núverandi, brottfluttir, aðfluttir og aðrir gestir koma fram og flytja tónlist, krakkazumba, föndur, barnastund, jui jitzu, unglingaball, brekkusöngur, afródans og bjórjóga svo fátt eitt sé nefnt. Einnig mun Saga Garðarsdóttir vera með uppistand auk þess sem hún og maðurinn hennar Snorri Helgason munu vera með fjölskylduskemmtun.

„Í ár byrjar hátíðin fyrr en vanalega. Að öðru leyti er miðað við sama upplegg og vanalega, með nokkrum nýjungum eða að dustað verður af eldri hugmyndum. Í ár bregðum við út af vananum varðandi fjármögnunarferlið. Hingað til höfum við selt auglýsingar í bækling hátíðrarinnar. En til að spara prentkostnað og um leið verða umhverfisvænni ætlum við ekki að prenta bækling eins og vanalega, heldur eingöngu einblöðung með dagskránni.“ Segir Sveinbjörg Rut Pétursdóttir ein af skipuleggjendum hátíðarinnar.

Sett hefur verið upp fjármögnunarsíða á Karolinafund og einnig hefur bankareikningur Eldur í Húnaþingi verið auglýstur fyrir beinan fjárstuðning, 0159-26-004206 kt. 420605-1530.

Það er því ljóst að fólk má byrja að hlakka til sumarsins því nóg verður um að vera á Norðurlandi vestra í sumar. 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir