Bættu Íslandsmetið og komust upp um deild

Íslenska landsliðið í frjálsíþróttum, með Skagfirðingnum Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni innan sinna raða, komst upp um deild í Evrópukeppni landsliða þegar liðið endaði í 2. sæti í þriðju deild keppninnar í Tbilisi í Georgíu. Þá bætti Jóhann Björn, ásamt sveit sinni í 4x100m boðhlaupi karla, Íslandsmetið þegar sveitin hljóp á 40,84 sekúndum í gær.

Á Facebook síðu Frjálsíþróttasambands Íslands segir að fyrra Íslandsmetið hafi verið 41,19 sek. frá árinu 1996 en fyrra met áttu Jón Arnar Magnússon, Ólafur Guðmundsson, Hörður Gunnarsson og Jóhannes M. Marteinsson.

Ísland átti í harðri baráttu við Ísrael um 2. sætið á mótinu en var að lokum með fimmtán og hálfu stigi á undan. Kýpur vann 3. deildina með 495 stig og keppir ásamt Íslandi í 2. deild á næsta ári.

Samkvæmt síðunni var markmið Íslands fyrir mótið í Tbilisi að komast upp um deild, og það tókst þrátt fyrir að Hlynur Andrésson hafi verið dæmdur úr leik í 1500m hlaupi karla í gær fyrir að stíga á línu, og engin stig fengust fyrir þá grein. Þau stig hefðu jafnvel dugað til sigurs í deildinni segir á síðunni.

 

Fleiri fréttir