Baldur og Aðalsteinn Íslandsmeistarar
Átján áhafnir mættu til leiks í Alþjóðarallýinu, sem í daglegu tala gengur undir nafninu Reykjavíkurrallýið, en það fór fram um helgina. TímON félagarnir Aðalsteinn Símonarson úr Borgarnesi og Baldur Haraldsson frá Sauðárkróki mættu til keppni með sextán stiga forskot. Lönduðu þeir Íslandsmeistaratitlinum í þessari síðustu keppni ársins.
Baldur og Aðalsteinn urðu í öðru sæti um helgina, á tímanum 3.13.25 en um einni og hálfri mínútu á undan þeim voru þau Ásta Sigurðardóttir og Daníel Sigurðarson á tímanum 3.11.53. Baldur og Aðalsteinn hrepptu samt sem áður Íslandsmeistaratitilinn, enda komnir með gott forskot úr fyrri keppnum. Hvorki Borgfirðingi né Skagfirðingi hefur áður tekist að landa þessum titli.
Á meðal keppinauta þeirra Baldurs og Alla voru fimm erlendar áhafnir frá breska hernum. Þá er gaman að geta þess að Örn Ingólfsson, ávallt kallaður Dali, mætti til keppni ásamt Óskari Jóni Hreinssyni. Dali er 77 ára gamall og því er greinilegt að rallý er ekki bara íþrótt fyrir ungt fólk sem vill fá útrás.