Bankaþjónusta með breyttu sniði

Vegna herts samkomubanns og til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 geta viðskiptavinir Landsbankans aðeins fengið afgreiðslu í útibúi ef erindið er mjög brýnt og ekki er hægt að leysa úr því með öðrum hætti, þ.e. í sjálfsafgreiðslu eða með samtali við Þjónustuver. Til að fá afgreiðslu er nauðsynlegt að panta tíma fyrirfram en breytingarnar taka gildi frá og með deginum í dag, þriðjudagsins 24. mars 2020, og gilda þar til samkomubanni stjórnvalda verður aflétt.

Á heimasíðu Landsbankans kemur fram að þessar breytingar taka einnig til Fyrirtækjamiðstöðvar Landsbankans og afgreiðslu Bíla- og tækjafjármögnunar í Borgartúni 33 í Reykjavík.

Aðstæður í útibúum og afgreiðslum bankans eru mjög misjafnar og með því að takmarka heimsóknir í útibúin er betur hægt að uppfylla skilyrði samkomubannsins og gæta að öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Um leið fjölgar starfsfólki sem getur svarað fyrirspurnum sem koma í gegnum síma, tölvupóst og netspjall.

„Með því að takmarka afgreiðslu í útibúum tímabundið drögum við úr hættu á útbreiðslu Covid-19 og stuðlum að bættu öryggi viðskiptavina og starfsfólks. Um leið fær starfsfólk mikilvægt svigrúm til að sinna óskum viðskiptavina um upplýsingar, úrræði og aðstoð. Við leggjum mikla áherslu á að styðja við viðskiptavini okkar um allt land á meðan þetta ástand varir. Í langflestum tilfellum má ljúka erindum með rafrænum hætti, með símtali eða tölvupósti. Við munum leysa úr málunum saman,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir