Barnaskólasalurinn á Sauðárkróki jafnaður við jörðu

Gamli íþróttasalurinn við fyrrum barnaskólann á Sauðárkróki heyrir nú sögunni til en hann var endanlega rifinn niður í gær. Í hans stað verður reist bygging sem hýsa á sex litlar íbúðir og tengist skólahúsinu sem þegar er byrjað að breyta í íbúðarhúsnæði.

Að sögn Ara Ólafssonar hjá byggingafyrirtækinu Friðriki Jónssyni ehf. svaraði ekki kostnaði að breyta salnum í íbúðir eins og upphaflega var áætlað. Segir hann borga sig að byrja með hreint borð. Hönnun íbúðanna var í kjölfarið breytt svo nú verða íbúðir sex í staðinn fyrir fimm í fyrri áætlunum. „Íbúðirnar voru á tveimur hæðum í upphaflegu teikningunum en nú verða þrjár íbúðir á hvorri hæð og smá breytingar á þeim,“ segir Ari.

Vel hefur gengið að breyta þessu gamla skólahúsnæði í mannabústaði og segir Ari engin vandamál hafa komið upp enda húsið vel byggt í upphafi. Alls verða 13 íbúðir í öllu húsinu þegar þar að kemur og vonast Ari til þess að hægt verði að flytja inn í þá fyrstu í haust. „Það er draumurinn en kannski stenst það ekki. Það verður bara þá bara að koma í ljós.“

Þegar Feykir átti leið hjá byggingarstaðnum í gær var nánast búið að fjarlægja öll verksummerki um gamla salinn sem margir Króksarar eiga ljúfar minningar um og í morgun var hann allur. 

Feykir leitar til lesenda um sögur, viðburði og myndir frá salnum til frekari umfjöllunar og má senda á palli@feykir.is.

Hér fyrir neðan má sjá myndbrot af Rúnari Símonarsyni
beita sterkri klónni á rústir gamla íþóttasalarins.

Barnaskólasalurinn rifinn

Posted by Feykir on Föstudagur, 7. maí 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir