Bekkur í brekkunni

Bekkurinn í brekkunni. Mynd:skagafjordur.is
Bekkurinn í brekkunni. Mynd:skagafjordur.is

Eins og glöggir vegfarendur hafa vafalaust rekið augun í hefur verið komið fyrir bekk í brekkunni hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar er sagt frá því að fyrirspurn hafi borist til sveitarfélagsins varðandi það hvort ekki mætti setja niður bekk á þennan stað og fylgdi fyrirspurninni að einstaklingar sem nýta sér þjónustu dagdvalar aldraðra fari iðulega þessa leið og gott væri að geta hvílt sig á leiðinni upp brekkuna þar sem hægt væri að njóta útsýnisins.

Fljótt var brugðist við fyrirspurninni og kom starfsfólk þjónustumiðstöðvar Skagafjarðar bekknum fyrir. Bekkur þessi er í eigu garðyrkjudeildar og er því um tímabundna lausn að ræða. Unnið er í samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að koma fyrir varanlegum bekk í brekkunni.

Sveitarfélagið bendir á það í frétt sinni að hægt er að senda inn ábendingar og fyrirspurnir í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins undir flipanum „Ábendingar“ neðarlega til hægri á forsíðunni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir