Ben Griffiths til liðs við Tindastól
Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli hefur fengið nýjan leikmann til liðs við sig. Það er hinn bandaríski Ben Griffiths sem hefur bæst í leikmannahópinn og mun leika með liðinu það sem eftir er af tímabilinu.
Ben Griffiths kom til landsins í gær og mun leika með liðinu í leiknum gegn KV á KR-vellinum á morgun, en hann er fyrsti leikmaðurinn sem kemur til Stólanna í opna leikmannaglugganum.
Fannar Örn Kolbeinsson mætir aftur á völlinn á morgun eftir nokkurt hlé vegna meiðsla, en óheppnin hefur elt Tindastólsmenn það sem af er sumri og má þar t.d. nefna að þrír leikmenn liðsins enduðu á sjúkrahúsi eftir æfingu sl. mánudag. Óskar Smári Haraldsson meiddist það illa á æfingunni að hann mun ekki geta leikið meira með liðinu á þessu tímabili, Ingvi Hrannar Ómarsson rifbeinsbrotnaði og Mark Magee fékk heilahristing, en hann mun leika með liðinu á morgun. Fyrir eru meiddir Kristinn Justininao Snjólfsson, Björn Anton Guðmundsson og Konráð Freyr Sigurðsson.
Björn Metúsalem Aðalsteinsson mun standa vörð um mark Stólanna á morgun, en hann mun leysa Gísla Eyland Sveinsson af í leiknum.