Betri svefn – grunnstoð heilsu
Í kvöld, 4. nóvember, kl. 20:00 mun Erla Björnsdóttir flytja erindi í Fjölbrautskóla Norðurlands vestra, stofu 102, á Sauðárkróki. Í erindi sínu mun Erla fjalla um mikilvægi svefns fyrir líkamlega og andlega heilsu, dægursveiflu og áhrif hennar á frammistöðu, fara yfir algeng svefnvandamál og gefa góð ráð sem stuðla að bættum nætursvefni.
Erla Björnsdóttir er sálfræðingur og einn af þremur rekstraraðilum Sálfræðiráðgjafarinnar. Hún lauk B.A prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2007 og kandídatsprófi frá Háskólanum í Árósum 2009. Erla lauk svo doktorsprófi í líf-og læknavísindum frá Háskóla Íslands í janúar 2015. Í doktorsnámi sínu rannsakaði Erla svefnleysi, andlega líðan og lífsgæði hjá sjúklingum með kæfisvefn.
Erla hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) og vinnur að rannsóknum á því sviði ásamt samstarfsmönnum í Evrópu og Bandaríkjunum. Erla hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og einnig skrifað um svefn á innlendum vettvangi.
Fyrirlestur Erlu er öllum opinn og er í boði Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Er þetta í fjórða sinn sem Soroptimstaklúbbur Skagafjarðar býður Skagfirðingum og nærsveitungum upp á fræðsluerindi í tengslum við starf klúbbsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.