Betur fór en á horfðist þegar olía rann úr nýjum tanki Olís Varmahlíð

Hér sést hvar olía rennur eftir jarðvegi og plani þegar mikið agn olíu lak úr nýjum tanki Olís í Varmahlíð.Aðsend mynd.
Hér sést hvar olía rennur eftir jarðvegi og plani þegar mikið agn olíu lak úr nýjum tanki Olís í Varmahlíð.Aðsend mynd.

Það óhapp varð við Olísstöðina í Varmahlíð sl. sunnudag að mikið magn olíu endaði utan olíutanka er verið var að fylla á. Í ljós kom að olían hafði borist úr loftunarrörum fyrir ofan afgreiðsluplan en búið var að stöðva lekann þegar fulltrúi Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra mætti á staðinn.  

Svo virðist sem teikningar hafi verið rangar og eftirfylgni ábótavant við tengingu nýrra tanka sé að ræða þar sem stútur fyrir litaða gasolíu var merktur ólitaður og öfugt. Í atvikaskýrslu hjá Olís kemur fram að yfiráfyllivarnir höfðu víxlast í tengingu, þar sem merkingar voru rangar þegar þær voru tengdar.

„Við uppsetningu á lögnum var farið eftir teikningum og við merkingu var farið eftir teikningum, án þess að gæta að því hvort þær séu réttar í raun. Þegar áfyllikista var merkt, var búið að hylja lagnir, þannig að ekki var lengur hægt að rekja sig eftir lögnum og stútar sem stóðu upp úr, voru ómerktir,“ segir í skýrslunni.

Talið er að um 3.000 lítrar af olíu hafi farið upp úr tanknum, yfir jarðveg og út á stétt en þegar heilbrigðisfulltrúi kom á staðinn var enga olíupolla að sjá heldur hafði olían runnið niður í jarðveg í nágrenni loftunarröra og bílstjóri þurrkað upp það sem fór á malbik með ísogsefnum og sett sand yfir að því loknu. Því var ekki talin ástæða til þess að óska eftir aðstoð slökkviliðs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir