Bifreiðaverkstæði setur strik í reikninginn með geymslurými Byggðasafns Skagfirðinga

Mynd: Í bili tvö og þrjú frá vinstri eru geymslur Byggðasafnsins en Áki bifreiðaþjónusta er í fjórða bili þar sem dyrnar standa opnar. Mynd: PF.
Mynd: Í bili tvö og þrjú frá vinstri eru geymslur Byggðasafnsins en Áki bifreiðaþjónusta er í fjórða bili þar sem dyrnar standa opnar. Mynd: PF.

Á fundi atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar í síðustu viku var lagt fram bréf frá Safnaráði varðandi eftirlitsferð vegna nýs varðveislurýmis Byggðasafns Skagfirðinga að Borgarflöt á Sauðárkróki. Gerðar eru athugasemdir við langtímavarðveislu gripa í húsnæðinu hvað varðar eldvarnir, mögulegt vatnstjón og mengunarhættu einkum vegna bifreiðaverkstæðis við hliðina á varðveislurýminu.

Að ósk Byggðasafns Skagfirðinga sendi Safnaráð forvörð úr eftirlitsnefnd til að skoða aðstæður verðandi nýs geymsluhúsnæðis Byggðasafnsins að Borgarflöt 17 - 19, en þegar er búið að opna bifreiðaverkstæði í næsta bili við það rými sem er ætlað sem geymsluhúsnæði safnsins. Nathalie Jacqueminet forvörður heimsótti safnið  nýverið og skilaði Safnaráði skýrslu en heimsóknin var hluti af eftirliti Safnaráðs með viðurkenndum söfnum.

 „Safn sem ekki uppfyllir kröfur getur misst viðurkenningu Safnaráðs, en slík viðurkenning er meðal annars forsenda þess að hægt sé að sækja um rekstrarstyrki úr Safnasjóði. Nathalie kemst að því að ljóst sé að nokkur atriði viðkomandi langtímavarðveislu gripa yrðu ekki uppfyllt í nýju húsnæði að Borgarflöt 17-19, til dæmis hvað varðar eldvarnir, mögulegt vatnstjón og mengunarhættu og þar af leiðandi uppfylla ekki skilyrði Safnaráðs hvað varðar húsnæði viðurkenndra safna,“ segir Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga. Hvetur Safnaráð eigendur Byggðasafns Skagfirðinga að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi geymsluhúsnæði safnsins, þannig að það uppfylli skilyrði Safnaráðs um viðurkennd söfn.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf. Skagafjarðar harmar það að til standi að starfrækja bifreiðaþjónustu við hliðina á bráðabirgða varðveislurými Byggðasafnsins sem setur varðveislumál í uppnám og hyggst skoða málið til hlítar og leita lausna.

Pétur á verkstæði sínu Áki bifreiðaþjónusta. Hann vill meina að lóðin hafi verið skilgreind sem iðnaðar og athafnarlóð og bilin seld sem slík. Mynd: PF.

Mynd: Pétur á verkstæði sínu Áki bifreiðaþjónusta. Hann vill meina að lóðin hafi verið skilgreind sem iðnaðar og athafnarlóð og bilin seld sem slík. Mynd: PF.

Berglind segir að rekstur bifreiðaverkstæðis á þessum stað hafa komið á óvart þar sem upphaflega hafi verið gert ráð fyrir geymslum og frístundahúsnæði í byggingunni en stutt er síðan húsnæðisbilin voru afhent nýjum eigendum. Segir Berglind að verið sé að skoða hvað hægt er að gera en ekki sé búið að leysa málið.

Pétur Jóhannsson, eigandi Áka, sagði í samtali við Feyki að hvergi hafi það komið fram er bilin voru auglýst til sölu að ekki mætti vera með atvinnustarfsemi í húsinu, hvorki bílaverkstæði né annað. „Eðlilegt er að hver og einn sinni sínu bili og sæki um það sem hann þarf fyrir sína eign eða starfsemi.  Ég sinni mínu bili og aðrir verða að sinna sínu. Lóðin er skilgreind sem iðnaðar og athafnarlóð og bilin seld sem iðnaðarbil,“ segir Pétur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir