Bíóbíll RIFF í Húnaþingi vestra í dag
Bíóbíll RIFF (Reykjavik International Film Festival) verður á ferðinni um landið dagana 17.–23. september 2020 og er fyrsti áfangastaður Húnaþing vestra og þar verður bíóbíllinn á ferðinni í dag. Í kvöld er áætlað að bíllinn komi sér fyrir við Hótel Laugarbakka þar sem bíómynd verður sýnd á norðurvegg hótelsins.
Í frétta á vef Húnaþings vestra segir: „Bíóbíllinn mætir á Hvammstanga [...] og ekur um bæinn til að kynna sig. Hægt verður að kíkja innfyrir og glugga í stuttmyndir sem sýndar verða í bílnum í samstarfi við EFA. Bíllinn mun verða staðsettur við Félagsheimilið á Hvammstanga.
Um kvöldið verður bíllinn svo búinn að koma sér fyrir við Hótel Laugarbakka og mun þar standa fyrir bílabíói. Stórmyndinni Dancer in the Dark, eftir Lars von Trier með Björk í aðahlutverki, verður varpað á norðurvegg hótelsins (gamla íþróttahússins). Verð er 1.900 kr. á hverja bifreið.“
Bíóbíllinn stoppar ekki á fleiri stöðum á Norðurlandi, nema þá kannski til að taka bensín, en næst liggur leið hans á Dalvík þar sem hann fer rúntinn á morgun, föstudaginn 18. september.
