Bjargráðasjóður greiðir styrki

Mynd: stjornarradid.is
Mynd: stjornarradid.is

Bjargráðasjóður hefur greitt 442 milljónir króna í styrki vegna mikils kal- og girðingatjóns veturinn 2019-2020. Mikið tjón varð á ræktarlandi og girðingum á tímabilinu og því hafði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, frumkvæði að því að sjóðnum yrðu tryggðar 500 milljónir til að koma til móts við bændur og það tjón sem þeir urðu fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Kaltjónið olli mikilli uppskerurýrnun sumarið 2020 samhliða verulegum kostnaði við endurræktun og fóðurkaup. Girðingatjón varð einnig umtalsvert vegna snjóþyngsla. Með greiðslunni er komið til móts við kostnað bænda af þessum sökum og nema greiddir styrkir að meðaltali um helmingi tjónsins að mati stjórnar sjóðsins.

Kaltjón varð alls á 4.776 hekturum ræktarlands hjá þeim sem sóttu um til sjóðsins auk tjóns á 221,6 kílómetrum af girðingum. Alls bárust 212 umsóknir vegna kaltjóns. Stjórn sjóðsins ákvað að greiða styrki til 183 umsækjenda, alls að upphæð kr. 381,4 m. kr. Alls bárust 73 umsóknir vegna girðingatjóns. Stjórn sjóðsins ákvað að greiða styrki til 72 umsækjenda, alls að upphæð kr. 60,6 m.kr.

Bjargráðasjóður er sjálf­stæð stofn­un í eigu rík­is­ins sem hefur það hlut­verk að veita ein­stak­ling­um og fé­lög­um fjár­hagsaðstoð til að bæta meiri­hátt­ar beint tjón af völd­um nátt­úru­ham­fara, meðal ann­ars vegna tjóns á girðing­um og vegna upp­skeru­brests af völd­um óvenju­legra kulda, þurrka og kals. Fjár­hagsaðstoð sjóðsins felst í veit­ingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í sam­ræmi við fjár­hag og stöðu sjóðsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir