Bjarni Har hættur olíusölu

Bjarni Har fyrir utan verslun sína en um áramót urðu kaflaskil hjá honum þar sem ekki er lengur leyfilegt að selja olíu hjá versluninni. Mynd: PF.
Bjarni Har fyrir utan verslun sína en um áramót urðu kaflaskil hjá honum þar sem ekki er lengur leyfilegt að selja olíu hjá versluninni. Mynd: PF.

Um síðustu áramót afturkallaði Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra leyfi Verslunar Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki til að selja olíu eftir tæplega 90 ára farsælt starf fyrst sem umboðsaðili BP og síðar Olíuverzlunar Íslands, nú Olís.

Að sögn Sigurjóns Þórðarsonar, framkvæmdastjóra HNV, er búnaður stöðvarinnar ekki í samræmi við kröfur til bensínstöðva, sem gefnar voru út árið 1993 sem er að miklu leyti samhljóða núgildandi reglugerð nr. 884/2017.  Segir hann að hvorki sé til staðar afgreiðslu- né áfyllingarplan og ekki heldur nein olíuskilja tengd þeim.

 „Þetta eru mikil viðbrigði,“ segir Bjarni Har verslunarmaður.

 Bjarni segist ekki hafa verið upplýstur um áform Olís um að ekki yrði aðhafast neitt í málinu fyrr en hann hafi fengið þau svör, er hann lét vita fyrir áramótin að það þyrfti að fylla á olíutanka, að hvorki yrði sett bensín né olía á tanka á árinu 2018. „Þeir létu mig ekkert vita, sem er nú hálfleiðinlegt,“ segir Bjarni sem hefur verið með olíudælurnar fyrir augum alla sína daga. „Þetta eru mikil viðbrigði en olíusala hófst hjá versluninni upp úr 1930 og kostaði lítrinn af bensíni þá um 37 aura og smurolía um eina krónu,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Feyki sem kemur út í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir