Björn Margeirsson genginn til liðs við UMSS
Frjálsíþróttamaðurinn knái Björn Margeirsson frá Mælifellsá í Skagafirði kvaddi nú um áramótin FH með stæl en eins og landsfrægt var gat Björn ekki sætt sig við að keppa fyrir hönd félags sem hefði Kristján Arason í vinnu. Björn gekk nú í vikunni til liðs við UMSS þar sem hann hyggst klára sinn feril.
-Að sjálfsögðu skipti ég yfir í UMSS, þ.e. Tindastól. Ég ætlaði mér alltaf að ljúka ferlinum „í heimabyggð“ og afrek Kristjáns Arasonar og samviska mín urðu einfaldlega til þess að ég gerði það fyrr en ella. Ég hef þegar gengið frá félagaskiptunum og upplýst Gunnar Sigurðsson, yfirþjálfara frjálsíþróttadeildar Tindastóls, um málið, segir Björn í samtali við Feyki.is.
Aðspurður um viðbrögð við brotthvarf sitt frá FH segir Björn; -Ég hef bara fengið góð viðbrögð frá þjálfurum og stjórn frjálsíþróttadeildar FH, sem ég kann mjög að meta. Enda er ekki við frjálsíþróttadeild FH að sakast í þessu máli heldur beinist gagnrýni mín vegna ráðningar Kristjáns eingöngu til handknattleiksdeildar og yfirstjórnar félagsins. Ég tel því að ég skilji við frjálsíþróttadeild FH í fullri vinsemd og gagnkvæmri virðingu og kem til með að eiga áfram góða félaga og vini í FH. Ég hef orðið var við gífurlegan stuðning við ákvörðun mína annars staðar úr þjóðfélaginu á spjallsíðum á netinu, gegnum tölvupóst, sms-skilaboð og samtöl. Vissulega hef ég fengið eina og eina neikvæða „pillu“ vegna málsins, t.d. datt einhverjum í hug að peningar væru í spilinu fyrir mig, sem er fullkomin fjarstæða. Fyrir að ganga í Tindastól þáði ég nákvæmlega ekki neitt (þ.e. veraldleg gæði í formi fjármagns eða viðlíka) og borgaði t.d. félagaskiptagjald upp á heilar 1000 kr úr eigin vasa. Frjálsíþróttir eru því miður ekki atvinnumannaíþrótt nema fyrir fólk með Ólympíugetu ólíkt boltagreinum, þar sem jafnvel nægir að vera meðal 100-200 bestu leikmannanna í landi sem er nr. um og undir 100 á heimslista, til að fá mannsæmandi laun fyrir íþróttaiðkun sína.
Eru einhver mót eða keppnir sem þú ert að stefna á í framtíðinni?
Samfara félagaskiptunum reikna ég með að ljúka ferli mínum sem millivegalengdahlaupara, a.m.k. á alþjóðlega vísu. Ég prófaði fyrst í fyrra að hlaupa maraþon og reikna með að snúa mér að lengri hlaupum eftir því sem tími og áhugi leyfa. Ég er búinn að skrá mig í Rotterdam maraþon, sem fer fram í apríl 2011 og svo geri ég ráð fyrir að gera atlögu að „heimsmetinu“ í 55 km Laugavegshlaupinu í júlí, sem sett var árið 2009. En það verða vart fleiri Heims- og Evrópumeistaramót af minni hálfu.