Bleikt boð Krabbameinsfélags Skagafjarðar

Þuríður María og María Sjöfn. MYND AÐSWND
Þuríður María og María Sjöfn. MYND AÐSWND

„Á Bleika deginum berum við Bleiku slaufuna, klæðumst bleiku og lýsum skammdegið upp í bleikum ljóma til að minna á að það er list að lifa með krabbameini.” Þannig var Bleiki dagurinn í ár kynntur. Við í Skagafirði tókum undir þessi orð og héldum, að vanda, Bleika daginn hátíðlegan á Löngumýri, 29. október.

Salarkynnin voru lýst upp og skreytt bleikum kertum og rósum. Bleikur drykkur tók á móti gestum, sem streymdu að í rökkrinu hvaðanæva úr firðinum. Mörg eru nýgreind, önnur hafa á umliðnum árum gengið í gegnum meðferð og lifa með krabbameininu. Það á jafnt við um þau sem greindust sem og fjölskylduna alla.

Dagskrá kvöldstundarinnar var á léttum og þægilegum nótum, saman naut fólks vel kryddaðrar súpu með nýbökuðu brauði og hlustaði á sungið og talað orð. Sr. Halla Rut Stefánsdóttir sagði frá eigin reynslu af því að lifa með krabbameini og Snorri Snorrason , tenór, söng en meðleikari hans var Rögnvaldur Valbergsson.

Krabbameinsfélagið styrkir fjárhagslega þau sem sækja meðferð til Akureyrar og til Reykjavíkur og til þess fara bæði félagsgjöld sem og gjafir einstaklinga og félaga. Fyrir það erum við afar þakklát.

Félaginu barst óvænt gjöf í bleikum október 2025. María Sjöfn Jónsdóttir í Hátúni hafði tekið það upp hjá sjálfri sér að hanna og útbúa armbönd sem hún seldi. Hún var mætt þetta kvöld og veitti Þuríður María Jónsdóttir, gjaldkeri Krabbameinsfélags Skagafjarðar, framlagi hennar viðtöku. Kærar þakkir.

/aðsent

Fleiri fréttir