Starfsemi 1238 á Sauðárkróki kveður | Aðsent Freyja Rut

Eftir sex ára ólgusjó í ferðaþjónustu, áskorunum tengdum heimsfaraldri og afleiðingum þess, eftir sex ár af velgengni í stöðugu mótlæti, ótrúlegum árangri og verulegu framlagi til menningartengdrar ferðaþjónustu, ekki bara í Skagafirði heldur víða um lönd stöndum við á krossgötum og tilkynnum lokun sýningarinnar 1238 á Sauðárkróki.

Ástæðan er ekki sú að verkefnið hafi staðið höllum fæti. Þvert á móti. Árangurinn segir sína sögu, við höfum opnað gestasýningar 1238 í Reykjanesbæ, í Ungverjalandi og í Noregi. Gestafjöldi eykst ár frá ári og bókunarstaða fyrir næsta sumar er nokkuð góð. Okkur hefur verið boðið að flytja erindi á fjölda ráðstefna um alla Evrópu, bæði fyrir safna- og menningargeirann en líka innan nýsköpunargeirans. Við höfum hlotið viðurkenningar á við Framúrskarandi verkefni SSNV, Sproti ársins hjá Markaðsstofu Norðurlands og Heritage in Motion á vegum evrópskra safnasamtaka auk fjölda annarra tilnefninga. Verkefnið er velheppnað uppbyggingar- og nýsköpunarverkefni innan ferðaþjónustu sem íbúar og sveitastjórn Skagafjarðar geta og ættu að vera stoltir af. Lokunin er hins vegar bein og óumflýjanleg afleiðing þess að opinberir aðilar hafa ekki séð sér fært að halda áfram að veita verkefninu þann stuðning sem er forsenda þess að verkefnið geti haldið áfram að vaxa og dafna hér í Skagafirði. Sýningunni var ætlað að vera fyrsta skref í uppbyggingu ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugreinar á svæði sem á verulega undir högg að sækja. Fyrsta skrefið er ekki nóg, það þarf að taka næsta skref ef raunveruleg uppbygging á að eiga sér stað.

„Erum við að láta fjársjóð renna okkur úr greipum?“ var fyrirsögn greinar sem birtist hér í Feyki fyrir örfáum vikum og fjallaði um rýran hlut sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þegar kemur að vægi ferðaþjónustunnar í útsvarsgrunni. Stutta svarið við þeirri spurningu er: . En það þarf alls ekki að vera þannig, ferðaþjónusta á svæðinu hefur ótal tækifæri og möguleika. Með beinu flugi inná Akureyri, auknum komum skemmtiferðaskipa í hafnir fjarðarins, auknu aðgengi, fjölbreyttari úrvali og lengri ferðamannatímabili getur Skagafjörður orðið að einum vinsælasta ferðamannastað á Íslandi, þar sem hæglæti og nærandi ferðaþjónusta blómstrar í sátt og samlyndi við íbúa héraðsins allt árið um kring. Ferðaþjónustufyrirtæki, sveitarstjórnin og aðrir hagsmunaaðilar þurfa að vinna saman að þróun og uppbygginu á svæðinu, og skapa heildstæða og aðlaðandi upplifun fyrir ferðamenn. Það þarf að sinna þessu verkefni af heilum hug, sýna þrautsegju og seiglu en hlaupa ekki á eftir skammtímasjónarmiðum.

Höfum við áhuga, getu og vilja til að ná í stærri sneið af kökunni?” var síðan niðurlag áðurnefndrar greinar og því miður virðist svarið blasa við. Raunverulegur stuðningur við nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf er í orði en ekki á borði, það er engin skýr sýn á því hvernig eigi að laða að nýja fjárfesta og fjölbreyttara atvinnulíf. Fókusinn er aðeins á að halda því gangandi sem fyrir er en ekki að byggja upp framtíðartækifæri með raunverulegum stuðningi við nýsköpun eða uppbyggingu nýrra innviða. Hér eru mikilvægar ákvarðanir eru teknar út frá stuttum kjörtímabilum eða skammtíma vinsældum, en ekki út frá langtíma hagsmunum samfélagsins.

Um leið og við kveðjum starfsemi 1238 á Sauðárkróki þökkum við fyrir góðar stundir á fjölda menningarviðburða í Gránu á síðustu árum.

Fleiri fréttir