Blöndustöð hlýtur Blue Planet verðlaunin

Starfsfólk Landsvirkjunar með verðlaunin. Frá vinstri: Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Guðmundur R. Stefánsson, stöðvarstjóri á Blöndusvæði, Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri og Sigurður Guðni Sigurðsson, deildarstjóri vatnsaflsdeildar. Mynd: Landsvirkjun.is
Starfsfólk Landsvirkjunar með verðlaunin. Frá vinstri: Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, Guðmundur R. Stefánsson, stöðvarstjóri á Blöndusvæði, Ragnheiður Ólafsdóttir, umhverfisstjóri og Sigurður Guðni Sigurðsson, deildarstjóri vatnsaflsdeildar. Mynd: Landsvirkjun.is

Blöndustöð Landsvirkjunar hefur hlotið Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara framúr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin voru veitt á þingi samtakanna, sem haldið var í Addis Ababa í Eþíópíu. Verðlaunin eru veitt á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Í úttektinni, sem var mjög umfangsmikil og fór fram í Blöndustöð og á aðalskrifstofu Landsvirkjunar, voru teknir til nákvæmrar skoðunar 17 flokkar sem varða rekstur Blöndustöðvar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka má nefna samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun.

Á heimasíðu Landsvirkjunar segir að niðurstöður úttektarinnar hafi verið á þá leið að Blöndustöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

„Þessi verðlaun eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun og viðurkenning á því góða starfi sem starfsfólk okkar hefur unnið á undanförnum árum. Um leið hvetur hún okkur til áframhaldandi góðra verka. Það er mikilvægt að huga að öllum hliðum sjálfbærrar þróunar; umhverfis-, samfélags- og efnahagslegra áhrifa við rekstur orkuvera og við munum áfram gera okkar ýtrasta í þeim efnum í framtíðinni,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Fleiri fréttir