Börn fyrir börn verður haldin í dag
Samkoman Börn fyrir börn verður haldin í dag kl. 14 í sal FNV á Sauðárkróki en um góðgerðarsamkomu er að ræða þar sem börn og unglingar koma saman og halda tónlistar- og danshátíð til styrktar öðrum börnum. Í ár verður safnað fyrir félagið Einstök börn og Heilbrigðisstofnunina okkar á Sauðárkróki. Dagskráin verður fjölbreytt og koma fram börn og ungmenni í Skagafirði.
Frítt er inn á sjálfa hátíðina en söfnunarbaukur verður til staðar þar sem fólk getur sett frjáls framlög og rennur allur ágóði til góðgerðarmála. Börn fyrir börn er partur af Barnamenningardögum og liður í því að byggja upp það starf sem er í félögum eins og Einstök börn og svo að styrkja okkar eigin Heilbrigðisstofnun en þar njóta mörg börn og unglingar aðstoð með daglegt líf.
„Tónadans heldur hátíðina en þeir sem koma fram eru ekki endilega nemendur Tónadans eða tengjast honum á nokkurn hátt nema þá að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni. Eins og áður segir er dagskráin fjölbreytt og tilvalið að styrkja gott málefni hjá flottum börnum og unglingum. Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra styrkir Barnamenningardaga og FNV styrkir hátíðina Börn fyrir börn ásamt Tónadansi og þátttaka allra þeirra sem taka þátt er ómetanleg. Verið öll velkomin og athugið að hátíðin er líka fyrir fullorðna,“ segir Kristín Halla hjá Tónadansi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.