Breyting á eignarhaldi Fjölnets
Þann 1. apríl sl. keyptu félagarnir Pétur Ingi Björnsson og Sigurður Pálsson tölvufyrirtækið Fjölnet af Tengli, sem er dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, tæki og viðskiptavild. Fyrirtækið er með starfsemi á Sauðárkróki og í Reykjavík þar sem Sigurður er búsettur.
Að sögn þeirra félaga verður starfsemin óbreytt, sem er hýsing og rekstur tölvukerfa ásamt internetþjónustu. Auk þess stendur viðskiptavinum til boða að kaupa GSM- og heimasímaáskriftir, sem er nýjung. Starfsmenn eru sex talsins, fjórir á Sauðárkróki og tveir í Reykjavík.
„Fjölnetið er eitt elsta internet- og hýsingarfyrirtæki landsins, stofnað árið 1999. Pétur byrjaði hjá Fjölneti árið 2006, Sigurður kom inn þegar við opnuðum í Reykjavík fyrir rúmum tveimur árum síðan en hýsingarsalurinn er á Króknum,“ segja Pétur og Sigurður og benda á að Fjölnet gefi sig út fyrir að vera með persónulegri þjónustu við viðskiptavini umfram allt.