Breytingar á þjónustu Svf. Skagafjarðar og messa fellur niður

Í ljósi Covid-19 smita í Skagafirði verða talsverðar breytingingar á starfsemi sveitarfélagsins frá og með morgundeginum, sunnudeginum 9. maí. Þá fellur niður guðsþjónusta í Sauðárkrókskirkju sem átti að vera kl. 11 sama dag og einnig hefur aðalsafnaðarfundi kirkjunnar, sem vera átti á morgun, verið frestað um óákveðinn tíma.

Á vef sveitarfélagsins er tilkynnt um eftirtaldar breytingar á þjónustu sveitarfélagsins í kjölfar smita: „Skerðing verður á starfsemi sundlauga í sveitarfélaginu. Sundlaugar verða opnar en heitir pottar verða lokaðir ásamt gufu- og eimböðum.

Þjónusta í ráðhúsi verður áfram með þeim takmörkunum sem hafa verið í gildi undanfarið en ekki eru allir starfsmenn ráðhússins staðsettir í ráðhúsinu. Fólk er því hvatt til að beina erindum sínum í gegnum síma (455-6000), tölvupóst eða íbúagátt á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar eigi það þess kost. Netföng flestra starfsmanna er að finna á heimasíðunni en einnig má senda fyrirspurnir á netfangið skagafjordur@skagafjordur.is. Opnunartími afgreiðslu er frá kl 10:00 – 12:00 og 12:30 – 15:00 alla virka daga.

Mælst er til þess að íþróttaæfingar yngri flokka verði felldar niður meðan smitrakning stendur yfir og þangað til heildarmynd er komin á dreifingu smita.

Umhverfisdagar Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem fara áttu fram 15. maí og plokk-áskoranda keppni milli fyrirtækja sem átti að hefjast núna á mánudag er frestað um óákveðinn tíma.“

Skíðasvæði Tindastóls verður lokað á morgun utan þess að göngubraut hefur verið lögð en engin aðstaða verður opin á svæðinu. Mælst er til þess að samkomur þar sem hópamyndun er verði felldar niður eða þeim frestað.

Þá kemur fram að íbúar eru hvattir til að fylgjast með fréttum og verður staðan endurskoðuð í samræmi við framgang smitrakningar og heildarumfang smita. Fólk er hvatt til að gæta allra persónulegra sóttvarna og fara að öllu með gát. Mikilvægt er að einstaklingar sem finna fyrir einkennum séu ekki á meðal fólks og fari í skimun við fyrsta tækifæri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir