Brúðulistahátíðin á Hvammstanga verður haldin þrátt fyrir hertar sóttvarnarreglur

Þrátt fyrir strangari reglur um fjölda einstaklinga sem saman kemur, m.a. í leikhúsum, hafa aðstandendur brúðulistahátíðarinnar HIP (Hvammstangi International Puppetry Festival) ákveðið að halda hátíðina.

„Hátíðinni verður ekki aflýst, enda taka nýjustu reglur tillit til þeirrar hverfandi litlu smithættu sem er á menningarviðburðum þar sem fólk situr kyrrt í eigin sætum, með sínu fólki, með grímu fyrir vitum, í öruggri fjarlægð frá öðrum,“ segir í tilkynningu frá Gretu Clough, listrænum stjórnanda hátíðarinnar.

Þessu til viðbótar segir að opnað verði snemma inn í sal, og útgöngu úr salnum stjórnað þannig að engar tappamyndanir eigi sér stað og minnt er á grímuskyldu á sýningum.

„Þó að af hátíðinni verði er sætaframboð enn minna en áður, og því er fólk eindregið hvatt til þess að panta sér miða á ókeypis atburði með einkaskilaboðum á Facebook, og til þess að kaupa sér miða á þá atburði sem kosta á Tix.is, hið allra fyrsta.

Búast má við að ýmsir hliðarviðburðir færist til eða jafnvel falli niður sökum takmarkana, og því afar mikilvægt að fylgjast vel með Facebook-síðu hátíðarinnar.

Það er virkilega spennandi dagskrá framundan og við hvetjum fólk til að njóta þess að eiga kosta á heimsklassa listviðburðum í heimabyggð á þessum krefjandi tímum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir