Brunavarnir Skagafjarðar með nýjan sjúkrabíl

Brunavarnir Skagafjarðar hafa tekið í notkun nýjan sjúkrabíl, en um er að ræða einn af 25 bílum sem Rauði krossinn er að afhenda um þessar mundir. Á Facebooksíðu Brunavarna segir að starfsmenn hafi verið að koma fyrir búnaði af ýmsu tagi í bílnum og að óhætt sé að segja að útkoman sé stórgóð.

Formleg afhending nýrra sjúkrabíla Rauða krossins á Íslandi hófst um miðjan ágúst og þar með raungerðist endurnýjun sjúkrabílaflotans í samræmi við samkomulag Sjúkratrygginga Íslands og Rauða krossins á Íslandi frá 11. júlí á liðnu ári.

„Þetta er stór dagur sem markar tímamót í þjónustu við landsmenn á sviði sjúkraflutninga og skiptir jafnframt miklu máli fyrir þá sem sinna þessu mikilvæga verkefni“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, við það tækifæri.

Efnt var til útboðs um bílakaupin og átti fyrirtækið Fastus tilboðið sem skoraði hæst og var tekið. Á heimasíðu stjórnarráðsins kemur fram að bílarnir 25 séu af tegundinni Mercedes Benz Sprinter. Þeir eru stórir og rúmgóðir sem tryggir sjúklingum góðar aðstæður, auðveldar sjúkraflutningamönnum að sinna þeim um borð og eykur þannig öryggi þjónustunnar. Í útboðinu var áhersla lögð á að nýir bílar myndu uppfylla ströngustu kröfur sérfræðinga varðandi öryggi, aðbúnað og vinnuumhverfi.

Fyrstu fimm sjúkrabílarnir voru afhentir föstudaginn 17. júlí. Síðan þá hafa nýir bílar komið til landsins í hverri viku og er gert ráð fyrir að þeir verði allir komnir til landsins innan skamms.

Fleiri myndir af bílnum er hægt að nálgast á FB-síðu Brunavarna Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir