Búkalú á Mælifelli næsta fimmtudagskvöldið

Sýningin hentar ekki fólki undir 18 ára, segir í tilkynningu og þá ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans.
Sýningin hentar ekki fólki undir 18 ára, segir í tilkynningu og þá ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans.

Margrét Erla Maack býður uppáhalds-skemmtikröftum sínum í þeysireið um Ísland og næstkomandi fimmtudagskvöld er stefnan sett á Sauðárkrók, en hópurinn kemur fram á skemmtistaðnum Mælifelli. Búkalú-ferðalagið er hálfnað um þessar mundir og skiptir Margrét út skemmtikröftum um hverja helgi. „Sýningin sjálf er skemmtiatriðahlaðborð – þar sem kynnir leiðir á svið mismunandi fólk sem gleður áhorfendur. Svona sýningarform er alltaf að verða vinsælla og vinsælla og býður upp á skemmtun fyrir fólk með mjög stutt athyglisspan,“ segir Margrét.

Sýningin blandar saman burlesque, sirkus, gríni og almennu rugli með fullorðinsbragði. Á Mælifelli koma fram burlesque-bomburnar Jezebel Express, Ula Uberbusen og Olive TuPartie, sirkuslistakonan Ellie Steingraeber og Margrét sjálf. Þetta er fimmta sýningarhelgin og hefur ferðalagið gengið gríðarlega vel, og áhorfendur kvartað yfir magaverkjum af hlátri. Margrét hefur undanfarin ár ferðast víða til sýninga, farið í fleiri Bandaríkjatúra en hún hefur tölu á og tvö Evrópuferðalög. „Búkalú er uppskeruhátíð þessara ferðalaga. Mig langaði í rauninni að endurgjalda vinum greiða og gera handvaldar sýningar á heimsmælikvarða þar sem ég stefni saman því besta frá Bandaríkjunum og Evrópu í bland við íslenska skemmtikrafta.“

Sýningin hentar ekki fólki undir 18 ára og ekki þeim sem óttast undur mannslíkamans, segir í tilkynningu en miðaverð er aðeins 2900 í forsölunni á www.bukalu.net en 3900 við inngang. „Og vegna fjölda fyrirspurna: Já, það verður hægt að kaupa brjóstadúska á sýningunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir